Breytingartillaga í vændum?

Spurning hvort sjálfstæðismenn vilja ekki kippa þessum náunga hér með í aflausnarmálið sem þeir lögðu fram á þinginu fyrir helgina.

Bæði málin má rekja til Rannsóknarskýrslunnar sem hvort er eð hefur verið að þvælast fyrir þeim að undanförnu.

Kannski er breytingartillaga í vændum frá þeim þar sem allir fyrrum forystu- og stuðningsmenn flokksins verði teknir út fyrir sviga við uppgjörið á hruninu?

Stóra lygin

Það er alltaf gott þegar þingmenn eru skýrir í tali.

Tryggvi Þór Herbertsson er einn slíkur eins og þetta ágæta dæmi vitnar vel um.

Hvað er þetta Icesave?

Icesave var innlánsreikningar sem Landsbanki Íslands stofnsetti í Bretlandi og síðar í Hollandi.

Icesave innlánsreikningarnir voru útibú frá Landsbankanum í Bretlandi og Hollandi með sama hætti og útibú bankans víðs vegar hér á landi.

Icesave innlánsreikningarnir voru stofnaðir í skjóli þáverandi stjórnvalda sem létu það átölulaust að íslenskir bankar söfnuðu háaum upphæðum inn á reikninga sína erlendis með ríkisábyrgð.

Þáverandi íslensk stjórnvöld töldu útrás íslenskra fjármálamanna vera til mikillar fyrirmyndar og hvöttu þá til dáða á þeim vettvangi. Það á m.a. við um Icesave innlánsreikninganna.

Icesave var valin viðskiptahugmynd ársins árið 2007 af þekktum íslenskum álitsgjöfum á þeim vettvangi.

Icesave er ein ljótasta birtingarmynd þeirrar hugmyndafræði sem ríkti í íslensku stjórnmála- og viðskiptalífi fram að hruni og er þó af nógu að taka.

Ég fer í mál!

Ný þöggunar aðferð virðist vera að ryðja sér til rúms hér á landi, með misjöfnum árangri þó. Nú hóta aðilar út tilteknum kreðsum samfélagsins öllum málsókn vegna meintra ærumeiðinga ef andað er í áttina til þeirra. Flestir muna ef til vill eftir málssókn Jóns Ólafssonar á hendur kunnum háskólaprófessor fyrir fáum árum og það fyrir erlendum dómstólum. Frekar ógeðfelld mál að mínu mati. Nú nýlega tapið svo Jón Ásgeir Jóhannesson máli gegn Svavari Halldórssyni, hinum síkvika og skemmtilega fréttamanni RÚV. Svavar var reyndar ekki eins heppin í öðru máli sem Pálmi Haraldsson sótti hann til saka fyrir og vann.

Atvinna eða evra? Hvað vill forseti ASÍ?

Af málflutningi forseta ASÍ að dæma er engu líkara en að honum finnist að við Íslendingar höfum ekki upplifað nægilega djúpa kreppu eftir efnahagshrunið 2008. Nýlega setti þessi forystumaður verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi fram þá skoðun að hagur hins almenna borgara hér á landi hefði verið betri ef Íslendingum hefði lánast að taka upp evru. Nefndi hann til skýringar að í Eystrarsaltsríkjunum styddust menn við evru og þrátt fyrir kreppu í þeim ríkjum þyrftu lántakendur að greiða miklu lægri vexti af húsnæðislánum sínum. Gott og vel en sennilega má efast um að meðalheimili sé að greiða þetta miklu lægri vexti núna í þessum ríkjum eftir að tekið er tillit til vaxtabóta. Ríkissjóður Íslands eyðir 1% af landsframleiðslu landsins í vaxtaniðurgreiðslur og fá mörg heimili þriðjung af sínum vaxtakostnaði niðurgreiddan í gegnum það kerfi. En hver er annars ábati Eystrarsaltsríkjanna af evrunni eða tenging við evruna? Ef horft er á fall landsframleiðslu og aukningu atvinnuleysis sést eftirfarandi mynd:

 

 

 

 

 

Hvað mótar afstöðu þingmanna til góðra mála?

Tvær atkvæðagreiðslur um fjárlög hafa vakið marga til umhugsunar. Önnur fór þeirra fór fram í desember í fyrra og var við atkvæðagreiðslu um fjárlög ársins. Hin síðari fór fram í gær vegna fjárlaga næsta árs.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins í ár, lagði fjárlagnefnd fram sameiginlega tillögu um að veita 50 milljónum króna til að hefja bólusetningu á ungum stúlkum gegn leghálskrabbameini. Þetta mál var vel undirbúið, hafði verið rætt innan heilbrigðiskerfisins og tekið til umfjöllunar í nefndum þingsins. Þetta var og er gott mál.

Þegar kom hinsvegar til þess að greiða um það atkvæða á þinginu kom í ljós að fjórir þingmenn treystu sér ekki til að styðja málið. Einn veit ég að gerði það af prinsipp-ástæðu, þ.e. vegna andstöðu sinnar við bólusetningar almennt. Afstaða hinnar þriggja virðist hafa mótast af andstöðu þeirra við ríkisstjórnina og fjárlagafrumvarpið sem þá var til umræðu.

Ákærur vegna hrunsins

Hún Eva Joly segir að það verði að fara að glitta í fyrstu kærur á hendur þeim sem urðu þess valdandi að íslenska bankakerfið féll saman haustið 2008. Þetta er hárrétt hjá Evu Joly eins og við erum reyndar öll búin að átta okkur á. Ábyrgð hrunfólksins er mikil gagnvart heimilum og fyrirtækjum í landinu og samfélaginu öllu sem mun þurfa mörg ár í viðbótar til að ná vopnum sínum aftur.

En ég vil frekar fá slíkar ákærur síðar en fyrr ef það er það sem þarf til að þær standist fyrir dómi. Ég vil ekki þurfa að horfa upp á að ákæruvaldið tapi dómsmálum gegn þessu liði vegna þess að málin voru illa undirbúin og ekki að fullu unnin. Gleymum því ekki að margir af þeim sem væntanlega verða ákærðir eru ágætlega staddir og munu leggja allt í sölurnar til að koma sér undan ábyrgð.

Svo skulum við heldur ekki gleyma því að nú þegar hefur einn af ábyrgðarmönnum hrunsins þegar verið ákærður.

Þingmaður kjördæmisins

Nú er Alþingi komið á lokasprettinn með gerð fjárlaga næsta árs. Síðasta umræða fjárlagafrumvarpsins verður næsta þriðjudag og eftir það munu fjárlög næsta árs verða ráðin. Fjárlaganefnd Alþingis er sú nefnd sem hefur með fjárlagavinnuna að gera eftir að frumvarp hefur verið lagt fram. Nefndin fær fjölda gesta og umsagna til sín vegna einstakra liða frumvarpsins og leitar víða fanga við að gera það sem best úr garði.

Nefndarmenn verða síðan fyrir talsverðum þrýstingi utan úr samfélaginu samhliða vinnu sinni vegna ýmissa mála og frá þeim sem telja að betur megi gera í málum þeim tengdum. Sumt af því ber árangur – annað ekki eins og gengur. Hér má sjá nýlegt dæmi um slíkt.

Það þykir víst ekki verra að ræða við "þingmann kjördæmisins" um slík mál – hef ég heyrt - enda verða þeir víst oft heldur meyrir á þessum árstíma en öðrum gagnvart kjósendum úr kjördæminu. Nema ef vera væri fyrir kosningar!

Myndin hér að ofan var tekin við opnun Hófaskarðsleiðar sl. vetur og hefur ekkert með þennan pistil að gera. Mér finnst hún bara svo flott.

Oddný "Saddam" Harðardóttir

Ágætur sessunautur minn á Alþingi, Guðlaugur Þór Þórðarson gerði þau mistök að líkja málflutningi Oddnýjar Harðardóttur við það þegar blaðafulltrúi Saddams Hussein var að reyna að verja einræðisherrann í aðdraganda falls hans. Þannig líkti hann þingflokksformanni samfylkingar við áróðursmeistara Saddams og ráðherrum ríkisstjórnarinnar við óþokkann sjálfan.

Þetta var heldur ósmekklegt hjá Guðlaugi Þór og illa tekið í orð hans í þingsal og þá ekki síður hjá þeim fjölda Palestínumanna sem sat á þingpöllum og beið eftir að fylgjast með atkvæðagreiðslu um þingsályktun um sjálfstæði Palestínu. Sum þeirra máttu þola mikið harðræði undir ógnarstjórn Saddams Hussein og því ekki ólíklegt að þeim hafi ofboðið framganga þingmanns sjálfstæðisflokksins.

Sennilega var það þó ekki meiningin hjá félaga Guðlaugi Þór að ganga þetta langt í offorsi sínu gegn stjórnaliðum. Líklegra er að hann hafi í ógáti flutt það inn í sali þingsins sem þetta fólk hendir sín á milli sér til gamans og sé partur af grófum gálgahúmor þeirra sem ekki á erindi utan veggja Valhallar.

Hvað gerir ríkisstjórnin nú?

Sú saga hefur verið sögð að þegar Adólf Hitler fór að haga sér dólgslega í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar, hafi Kvenfélag Bárðdælinga fundað um málið og send frá sér harðorða ályktun gegn þeim málatilbúnaði öllum. Sagt var að norðanmenn hefðu klórað sér í höfðinu yfir þessari álykt og velt því fyrir sér hvað Hitler myndi nú gera. Það þótti ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að fá kvenfélagskonur í Bárðardal á móti sér og breytti þá engu um hver fyrir því varð.

Ekki dettur mér í hug neinn sanngjarn samanburður við norðlensku konurna en mér datt þetta samt í hug í þessu samhengi þegar ég las þessa „frétt“.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS