Þingmaður kjördæmisins

Nú er Alþingi komið á lokasprettinn með gerð fjárlaga næsta árs. Síðasta umræða fjárlagafrumvarpsins verður næsta þriðjudag og eftir það munu fjárlög næsta árs verða ráðin. Fjárlaganefnd Alþingis er sú nefnd sem hefur með fjárlagavinnuna að gera eftir að frumvarp hefur verið lagt fram. Nefndin fær fjölda gesta og umsagna til sín vegna einstakra liða frumvarpsins og leitar víða fanga við að gera það sem best úr garði.

Nefndarmenn verða síðan fyrir talsverðum þrýstingi utan úr samfélaginu samhliða vinnu sinni vegna ýmissa mála og frá þeim sem telja að betur megi gera í málum þeim tengdum. Sumt af því ber árangur – annað ekki eins og gengur. Hér má sjá nýlegt dæmi um slíkt.

Það þykir víst ekki verra að ræða við "þingmann kjördæmisins" um slík mál – hef ég heyrt - enda verða þeir víst oft heldur meyrir á þessum árstíma en öðrum gagnvart kjósendum úr kjördæminu. Nema ef vera væri fyrir kosningar!

Myndin hér að ofan var tekin við opnun Hófaskarðsleiðar sl. vetur og hefur ekkert með þennan pistil að gera. Mér finnst hún bara svo flott.