Ákærur vegna hrunsins

Hún Eva Joly segir að það verði að fara að glitta í fyrstu kærur á hendur þeim sem urðu þess valdandi að íslenska bankakerfið féll saman haustið 2008. Þetta er hárrétt hjá Evu Joly eins og við erum reyndar öll búin að átta okkur á. Ábyrgð hrunfólksins er mikil gagnvart heimilum og fyrirtækjum í landinu og samfélaginu öllu sem mun þurfa mörg ár í viðbótar til að ná vopnum sínum aftur.

En ég vil frekar fá slíkar ákærur síðar en fyrr ef það er það sem þarf til að þær standist fyrir dómi. Ég vil ekki þurfa að horfa upp á að ákæruvaldið tapi dómsmálum gegn þessu liði vegna þess að málin voru illa undirbúin og ekki að fullu unnin. Gleymum því ekki að margir af þeim sem væntanlega verða ákærðir eru ágætlega staddir og munu leggja allt í sölurnar til að koma sér undan ábyrgð.

Svo skulum við heldur ekki gleyma því að nú þegar hefur einn af ábyrgðarmönnum hrunsins þegar verið ákærður.

Ef ég hef skilið rétt þá virðist engin sérstök hamingja með það á öllum bæjum í sveitinni.