Galin aðgerð sem þarfnast frekari útskýringa

„Kirkjugrið fólust í að sá sem sóttur var með vopnavaldi mátti leita sér skjóls í kirkju eða kirkjugarði og naut friðhelgi meðan hann dvaldi þar.“
Vísindavefur Háskóla Íslands

Öruggur sigur Guðna Th

Margir virðast telja að lítið hafi skilið á milli Guðna Th Jóhannessonar og Höllu Tómasdóttur í forsetakosningunum. Jafnvel svo lítið að Halla hafi ekki þurft nema nokkra daga í viðbót til að vinna þann mun upp.
En þetta stenst enga skoðun.
Í fyrsta lagi þá tilkynnti Halla um framboð sitt tæpum þrem vikum á undan Guðna og hafði því talsvert forskot á hann hvað það varðar sem nýttist henni ekki.
Í öðru lagi fékk Halla um 20 þúsund atkvæðum færri en Guðni í kosningunum.
Í þriðja lagi hefði hún þurft að bæta við sig um 40% fylgi til að ná Guðna að því gefnu að hann stæði í stað á meðan.
Sigur Guðna Th Jóhannessonar var því mjög öruggur þótt hann yrði ekki jafnt stór og spáð hafði verið.

Það er margt í mörgu

Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti Íslands. Hann nýtur mikils trausts, sigraði í öllum kjördæmum og höfðar til fólks á öllum aldri, beggja kynja og þvert á pólitískar línur. Guðni Th. verður góður forseti og vinsæll og kjör hans markar tímamót.
En hvað segja tölurnar okkur að öðru leyti um vilja kjósenda og hug þeirra til forsetaembættisins?
Til dæmis þetta til að byrja með:
Um 40% kjósenda kusu frambjóðanda sem bauð ekki upp á nein kosningaloforð önnur en þau að ætla að reyna að vera sameiningartákn þjóðarinnar og forseti allra landsmanna. Þessir kjósendur virðast vilja endurheimta forsetaembættið í líkingu við það sem það áður var.

Ótvíræður sigurvegari

„Ég er ekki með varalit. Ég er samt að tala.“
Elísabet Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi

Það er ekki líklegt að Elísabet Jökulsdóttir verði kjörin forseti Íslands í dag. Þó er hún á sinn hátt ótvíræður sigurvegari kosningabaráttunnar. Fæstum fannst mikið til framboðs hennar koma í upphafi. Ég var einn af þeim. En það hefur breyst. Elísabet hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með heillandi framgöngu sinni og án þess að verða nokkru sinni fótaskortur á leiðinni. Hún er þjóðargersemi sem öllum þykir bæði vænt um og mikið til koma. Flest viljum við vera Elísabet í okkur en erum og verðum það fæst.
En það munu fáir kjósa Elísabetu Jökulsdóttur í dag því það er nú einu sinni þannig að það er í eðli hópsins að hafna sínu hæfasta fólki.
Kannski er það lærdómur dagsins?

Það skiptir máli hverjir stjórna

Bætt tannheilsa barna er bein afleiðing af pólitískum ákvörðunum vinstristjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Undir forystu Guðbjartar Hannessonar þáverandi velferðarráðherra voru tannlækningar barna færðar inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Saga þessa máls er rakin ágætlega hér.
Þetta er enn eitt dæmið um hvað það skiptir gríðarlega miklu máli hverjir fara með stjórn landsins hverju sinni.
Ágætt fyrir fólk að hafa það í huga þegar kosið verður í haust.

Óþarfa áhyggjur af afgreiðslu fjárlaga

Það eru óþarfa áhyggjur sem koma fram í þessari grein um afgreiðslu fjárlaga næsta árs sem fleiri hafa reyndar nefnt og þá sem ástæðu til að fresta kosningum enn frekar.
Sumarið 2009, strax í kjölfar kosninga voru fjárlög þess árs tekin upp og endurunnin. Samhliða því var unnið að gerð fjárlaga ársins 2010. Þetta tvennt lagði grunn að uppbyggingu ríkisfjármálanna eftir Hrun. Aðstæður þá voru allt aðrar og margfalt erfiðari og flóknari en í dag.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða fjárlög næsta árs þó kosningar verði í október þó vissulega hefði verið betra að kjósa fyrr. Það þarf bara nýtt og duglegt fólk í þá vinnu.
Þess vegna þarf að kjósa.
Sem fyrst.

Harkaleg niðurstaða en sanngjörn

Það er rétt hjá Halldóri Halldórssyni, borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, að niðurstaða siðanefndar sambandsins er harkaleg. Það hlýtur að vera þeim þungbært sem málið varðar að fá jafn afgerandi álit um háttarlag sitt. En niðurstaðan er ekki ósanngjörn að mínu mati. Þvert á móti er hún skýr og vel rökstudd. Borgarfulltrúarnir sem um ræðir sýndu með framferði sínu litla ábyrgðarkennd og grófu undan tiltrú almennings á kjörnum fulltrúum. Svo einfalt er nú það. Það er virðingarvert af Sambandi íslenskra sveitarfélaga að taka af festu á svona málum líkt og hér er gert.

Bíladagar á Akureyri

Ég er ekki bílaáhugamaður og hef ekkert vit á bílum. Það hafa verið sagðar sögur af bílaviðskiptum mínum í fjölskyldunni mér til háðungar.
En ég hef áhuga á Bíladögum á Akureyri, þ.e. ég vil að þeir festi sig í sessi sem viðbót við fjölmarga aðra skemmtilega viðburður í bænum. Það er mikill áhugi á bílum og mótorsporti í bænum sem þarf að rækta eins og allt annað. En ég hef líka fullan skilning á því að kvartað sé undan hávaða og látum á bíladögum rétt eins og stundum vill verða á öðrum íþróttamótum og samkomum í bænum. En það er bara mál sem þarf að leysa og er vel hægt að leysa í góðri samvinnu bæjaryfirvalda, lögreglu, íbúa og aðstandenda bíladaga.

Davíð tætir fylgið af sjálfstæðisflokknum

Ef það er eitthvað sem forysta sjálfstæðisflokksins vildi EKKI að gerðist, þá var það að Davíð Oddsson léti á sér kræla aftur á opinberum vettvangi. En það var nákvæmlega það sem gerðist. Þar með ýfðust upp öll sárin sem sjálfstæðismenn vonuðu að væru gróin og öll gömlu málin sem flest voru gleymd og grafin spruttu upp og laufguðust á nýjan leik með forsetaframboði foringjans, líkt og margærar jurtir sem þurfa bara reglulega aðhlynningu til að vaxa ár eftir ár. Icesave, fall Seðlabankans, einkavæðing bankanna, spillingin, vanhæfnin, stjórnleysið, gáleysið, vinahyglin, hrokinn, stærilætið og öll gamla íhaldspólitíkin sem átti að vera fallin í gleymskunnar dá – birtist þjóðinni í líki gamla foringjans og klesstist á flokkinn í leiðinni. Skiljanlega.

Áskorun til íslenskra útgerðarmanna!

Enginn skóli á Íslandi hefur skilað jafn miklum og áþreifanlegum árangri í slysavörnum og Slysavarnarskóli sjómanna. Það eru ekki svo  mörg ár síðan alvarleg slys og dauðaslys meðal sjómanna skiptu tugum á hverju ári og minniháttar slys hundruðum ef ekki þúsundum árlega. Nú höfum við upplifað nokkur ár án dauðaslysa til sjós og öðrum slysum hefur stórfækkað. Því má að stærstum hluta þakka stjórnendum og starfsfólki Slysavarnarskóla sjómanna. Vegna skólans hefur orðið mikil viðhorfsbreyting meðal sjómanna til slysavarna sem hefur skilað hinum mikla árangri. Það sama má segja um íslenska útgerðarmenn sem hafa tekið þessi mál föstum tökum á sínum skipum. Með samvinnu þessara aðila hefur náðst árangur í slysavörnum á sjó sem eftir er tekið.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS