Það er margt í mörgu

Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti Íslands. Hann nýtur mikils trausts, sigraði í öllum kjördæmum og höfðar til fólks á öllum aldri, beggja kynja og þvert á pólitískar línur. Guðni Th. verður góður forseti og vinsæll og kjör hans markar tímamót.
En hvað segja tölurnar okkur að öðru leyti um vilja kjósenda og hug þeirra til forsetaembættisins?
Til dæmis þetta til að byrja með:
Um 40% kjósenda kusu frambjóðanda sem bauð ekki upp á nein kosningaloforð önnur en þau að ætla að reyna að vera sameiningartákn þjóðarinnar og forseti allra landsmanna. Þessir kjósendur virðast vilja endurheimta forsetaembættið í líkingu við það sem það áður var.
Um 60% kjósenda studdu frambjóðendur sem með einum eða öðrum hætti sögðust ætla að nýta sér embættið í þeim tilgangi að ná fram tilteknum pólitískum markmiðum og að veita Alþingi pólitískt aðhald. Þessir kjósendur virðast vilja auka pólitískt vald forsetans á kostnað þingræðisins.
Ríflega 40% kjósenda studdu tvo frambjóðendur af ysta hægrivæng stjórnmálanna. Þessir kjósendur, sem jafnframt eru í hópi þeirra sem vilja auka vald forsetans, virðast vilja að forsetinn beiti sér fyrir einkavæðingu náttúrauðlinda, heilbrigðis- og menntakerfisins og fyrir skattalækkunum á efnameira fólk og fyrirtæki.

Það er margt í mörgu þegar að er gáð.