Harkaleg niðurstaða en sanngjörn

Það er rétt hjá Halldóri Halldórssyni, borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, að niðurstaða siðanefndar sambandsins er harkaleg. Það hlýtur að vera þeim þungbært sem málið varðar að fá jafn afgerandi álit um háttarlag sitt. En niðurstaðan er ekki ósanngjörn að mínu mati. Þvert á móti er hún skýr og vel rökstudd. Borgarfulltrúarnir sem um ræðir sýndu með framferði sínu litla ábyrgðarkennd og grófu undan tiltrú almennings á kjörnum fulltrúum. Svo einfalt er nú það. Það er virðingarvert af Sambandi íslenskra sveitarfélaga að taka af festu á svona málum líkt og hér er gert.
Þrír ráðherrar ríkisstjórnar hægriflokkanna voru í sömu sporum. Einn er hættur en situr áfram á þingi. Hinir tveir sitja sem fastast í sínum ráðherrastólum. Annar þeirra er fjármálaráðherra og hinn dómsmálaráðherra. Tveir af þessum þremur eru formenn stjórnarflokkanna. Allir þrír segjast ætla að gefa kost á sér til áframhaldandi þingstarfa. Það er hneyksli.
Kannski ætti forseti Alþingis að biðja siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga að fjalla um mál þeirra þriggja?
Engin er slík nefndin til á Alþingi.
Því miður.