Davíð tætir fylgið af sjálfstæðisflokknum

Ef það er eitthvað sem forysta sjálfstæðisflokksins vildi EKKI að gerðist, þá var það að Davíð Oddsson léti á sér kræla aftur á opinberum vettvangi. En það var nákvæmlega það sem gerðist. Þar með ýfðust upp öll sárin sem sjálfstæðismenn vonuðu að væru gróin og öll gömlu málin sem flest voru gleymd og grafin spruttu upp og laufguðust á nýjan leik með forsetaframboði foringjans, líkt og margærar jurtir sem þurfa bara reglulega aðhlynningu til að vaxa ár eftir ár. Icesave, fall Seðlabankans, einkavæðing bankanna, spillingin, vanhæfnin, stjórnleysið, gáleysið, vinahyglin, hrokinn, stærilætið og öll gamla íhaldspólitíkin sem átti að vera fallin í gleymskunnar dá – birtist þjóðinni í líki gamla foringjans og klesstist á flokkinn í leiðinni. Skiljanlega.
Fylgið hrynur jafnt og þétt og fari sem horfir stefnir í enn einn sögulegan kosningaósigur flokksins í haust undir forystu Bjarna Benediktssonar. Sá hlýtur að vera gamla foringjanum þakklátur fyrir upprifjunina!
Það fór þó aldrei svo að ekki leiddi eitthvað gott af forsetaframboði foringjans sem tætir fylgið af sjálfstæðisflokknum og sjálfum sér í leiðinni.
Það má þakka fyrir það.