Aðeins tveir flokkar með gangverkið í lagi

Í fljótu bragði sýnist mér aðeins tveir stjórnmálaflokkar vera með gangverkið í lagi. Annars vegar sjálfstæðisflokkurinn sem þrátt fyrir allt virðist ætla að komast í nokkuð heilu lagi út úr langri röð spillingarmála sem herjað hafa á flokkinn. Sá flokkur getur gengið til kosninga með litlum fyrirvara og innheimt 25-30% fylgi.
Hins vegar eru það Vinstri græn sem eiga ekki við nein innanmein að glíma, eru með hausinn kaldan, pólitískar áherslur á hreinu og laus við allt það sem hrjáir aðra flokka. Vinstri græn eru klár í hvað sem er, hvenær sem er.
Kostirnir gætu því orðið óvenju skýrir í haust. Annars vegar stíf pólitísk hægristefna, líkt og við þekkjum á verkum og stefnu sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, eða Vinstri græn stefna sem leiða mun til jöfnuðar og uppbyggingar opinbera mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins.

Landinu er stjórnað af pólitískum kjánum

Þingmenn og ráðherrar hægriflokkanna slógu sér rækilega á brjóst í dag vegna upplýsinga sem fram komu um aukinn jöfnuð í landinu. Málið var sett á dagskrá ríkisstjórnarinnar þar sem ráðherrar hafa líklega rætt málið í þaula og skálað fyrir góðum árangri.  Að minnsta kosti var send út yfirlýsing sem vitnaði um það sem fram fór á þeim fundi. Hún hefur nú verið leiðrétt með stuttum texta neðst í yfirlýsingunni. Þingmenn ræddu málið úr ræðustól Alþingis.

Til varnar Mývatni!

Mývatn var friðað að lögum árið 1974 og sett á skrá Ramsarsamningsins fjórum árum síðar. Það þýðir að auk friðunarinnar er Mývatn á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg vötn sem skuldbindur okkur Íslendinga til að gera hvað við getum til að koma í veg fyrir að breytingar verði á vistkerfi vatnsins af mannavöldum.
Við stöndum okkur ekki vel í því.
Þvert á móti lítur nú út fyrir að vistkerfi Mývatns stafi veruleg ógn af mannavöldum og því verðum við sem samfélag að axla ábyrgð og snúast vatninu og lífríki þess til varnar. Annað væri ekki aðeins brot gegn skuldbindingum okkar og yfirlýstum markmiðum um friðun og verndun Mývatns, heldur einnig og ekki síður svívirðileg framganga gegn íslenskri náttúru og svæðum sem ekki eiga sér nein lík í veröldinni.

1. maí

1. maí er ekki frídagur, heldur baráttudagur. Launafólk í gegnum stéttarfélög sín hefur innleitt mestu og bestu breytingar í íslensku samfélagi síðustu 100 ár. Án öflugra stéttarfélaga og án samtakamáttar launafólks væri staða íslenskra heimila og almennings önnur og verri en hún er. Án stéttarfélaga og án samtakamáttar launafólks mun ekki leysast jafn farsællega úr verkefnum sem bíða okkar í framtíðinni og gert hefur til þessa.
Þess vegna eigum við öll að halda 1. maí hátíðlegan sem baráttudag fyrir betri lífskjörum og framförum fyrir allan almenning.
Til hamingju með 1. maí.

 

Þetta mál verður einfaldlega að stoppa!

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður sjálfstæðisflokksins, ætlar að selja 80% af þeim eignum sem kröfuhafar létu af hendi til ríkisins fyrir kosningar. Alþingi gaf fjármálaráðherra frjálsar hendur með söluna án þess að þingmenn vissu um hvaða eignir var að ræða eða hvert verðmat þeirra var, eins og Bjarni staðfestir í þessu viðtali.

„Við metum það svo að þegar þetta eignasafn hefur verið greint, þá eigi að vera hægt á tiltölulega skömmum tíma að finna nýja eigendur að mjög stórum hluta eignanna en ég vek athygli á því að þetta er fjölbreytt eignasafn.“

Framsókn er engu lík

Framkvæmdastjórn framsóknarflokksins telur enga ástæðu fyrir Hrólf Ölvisson að láta af störfum sem framkvæmdastjóri flokksins vegna aflandsmála hans. Forsætisráðherra sem á sæti í framkvæmdastjórninni m.a. ásamt formanni flokksins, ráðherrum og þingflokksformanni telur Hrólf ekki hafa að hafst nokkuð óeðlilegt og því engin ástæða fyrir hann að hætta. Allar gerðir hans rúmist auðveldlega innan þess ramma sem flokkurinn setur sínu fólki.
Hrólfur virðist samkvæmt þessu hafa þurft að heyja nokkra baráttu við framkvæmdastjórnina til að fá að hætta.

Framsókn er engu lík.

Innanbúðarmál framsóknarflokksins

Þingflokkur framsóknarflokksins ætlar að hittast síðar í dag og ræða aflandsmál framkvæmdastjóra flokksins. Framkvæmdastjórinn segist hafa upplýst Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann flokksins um sín mál. Formaðurinn hefur hins vegar aldrei upplýst þingmenn flokksins heldur þvert á móti att þeim stuð í stuð á foraðið með glórulausan málatilbúnað sem nú hefur verið flett ofan af.
Þegar allt kom til alls var um innanbúðarmál að ræða hjá framsóknarflokknum.

Kosningar strax!

Íslensk stjórnmál og viðskiptalíf er gegnumborað af spillingu. Stjórnarráðið, ríkisstjórn, Seðlabankinn, lífeyrissjóðir, stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar, atvinnu- og viðskiptalífið er rúið öllu trausti vegna spilltra stjórnenda. Og það á meira eftir að koma fram.

Af hverju þessi leynd um svo alvarleg mál?

Síðari hluta febrúar 2013 skrifaði Magnús Halldórsson, þá blaðamaður hjá 365 miðlum, grein undir heitinu „Litli karlinn“. Í greininni fjallar hann um ýmis málefni tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda fyrirtækisins, og tilraunum hans til að hafa áhrif á fréttaflutning miðla þess. Þrem vikur síðar sagði Magnús upp starfi sínu. Þrem dögum áður hafði annar fréttamaður, Þórður Snær Júlíusson, einnig sagt upp hjá 365 miðlum af sömu sökum. Þessir tveir sem voru og eru enn í hópi virtustu fjölmiðlamanna landsins stofnuðu síðan Kjarnann ásamt fleirum.

Fjármálaráðherra og skattaskjólið Ísland

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er harðasti stuðningsmaður  evrópskra stjórnmálamanna um aflandsfélög. Hann heldur því fram að svo framarlega sem skattaskjólsfólkið greiði einhverja skatta sé ekkert við það að athuga. Hann segir ómerkilegt að allir sem fara með fé í gegnum skattaskjól séu settir undir sama hatt. Hann vill meina að hann sé ekki í hópi skattaskjólsliðsins.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS