Aðeins tveir flokkar með gangverkið í lagi

Í fljótu bragði sýnist mér aðeins tveir stjórnmálaflokkar vera með gangverkið í lagi. Annars vegar sjálfstæðisflokkurinn sem þrátt fyrir allt virðist ætla að komast í nokkuð heilu lagi út úr langri röð spillingarmála sem herjað hafa á flokkinn. Sá flokkur getur gengið til kosninga með litlum fyrirvara og innheimt 25-30% fylgi.
Hins vegar eru það Vinstri græn sem eiga ekki við nein innanmein að glíma, eru með hausinn kaldan, pólitískar áherslur á hreinu og laus við allt það sem hrjáir aðra flokka. Vinstri græn eru klár í hvað sem er, hvenær sem er.
Kostirnir gætu því orðið óvenju skýrir í haust. Annars vegar stíf pólitísk hægristefna, líkt og við þekkjum á verkum og stefnu sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, eða Vinstri græn stefna sem leiða mun til jöfnuðar og uppbyggingar opinbera mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfisins.
Flokkarnir geta ráðið miklu um það sjálfir hversu skýrt þetta val verður. Það gera þeir með því að leggja stefnu sína fram með skýrum hætti og velja góða frambjóðendur til að koma henni í framkvæmd.
Það yrði ánægjuleg tilbreyting að láta kosningarnar í haust snúast um stjórnmál, stefnur og framtíð.