Af hverju þessi leynd um svo alvarleg mál?

Síðari hluta febrúar 2013 skrifaði Magnús Halldórsson, þá blaðamaður hjá 365 miðlum, grein undir heitinu „Litli karlinn“. Í greininni fjallar hann um ýmis málefni tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda fyrirtækisins, og tilraunum hans til að hafa áhrif á fréttaflutning miðla þess. Þrem vikur síðar sagði Magnús upp starfi sínu. Þrem dögum áður hafði annar fréttamaður, Þórður Snær Júlíusson, einnig sagt upp hjá 365 miðlum af sömu sökum. Þessir tveir sem voru og eru enn í hópi virtustu fjölmiðlamanna landsins stofnuðu síðan Kjarnann ásamt fleirum.
Flestir muna átökin um DV þar sem auðmenn lýstu því yfir að markmið þeirra væri að kaupa miðilinn í þeim tilgangi einum að losna undan gagnrýnum fréttaflutningi. Að lokum eignaðist innanbúðarmaður úr framsóknarflokknum DV og réð ritstjóra hvers nafn má finna í Panamaskjölunum.
Nú hefur komið í ljós að formaður framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra hefur ítrekað kallað fjölmiðlafólk til sín til að kvarta yfir fréttaflutningi um sig og sína. Ekkert þeirra upplýsti hins vegar almenning, lesendur, áheyrendur og áhorfendur um þetta. Ekki fyrr en nú þegar forsætisráðherrann er á bak og burt. Af hverju? Af hverju sögðu þau okkur ekki strax frá því að þau hefðu fengið ofanígjöf frá forsætisráðherra vegna fréttaflutnings þeirra um stjórnmál? Almenningur á rétt á að vita um slík mál þó ekki væri nema til að vera meðvitaður um að umræddir fréttamenn og miðlar þeirra gætu verið undir áhrifum af þeirri gagnrýni. Ekki síður til að upplýsa almenning um það hvernig stjórnvöld ganga hiklaust fram gegn frjálsri fjölmiðlun. Af hverju leyna fjölmiðlar okkur svo mikilvægum upplýsingum?
Er þetta hér t.d. til vitnis um að yfirgangur og frekja stjórnvalda gagnvart fjölmiðlum hafi borið árangur?
Hvað hefðu þeir Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson gert ef forsætisráðherra hefði kallað þá á fund sinn til að setja ofan í við þá vegna þeirra starfa?
Spurningin svarar sér sjálf.