Stjórnarmyndun

Frá kosningum hafa þrír forystumenn stjórnmálaflokka fengið formlegt umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar, Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Bjarni Benediktsson. Sá síðastnefndi er nú með það umboð í annað sinn. Katrín stýrði formlegum stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka en Bjarni er nú í annarri tilraun með sömu flokkum og áður, enda virðist hugur hans stefna ákveðið í þá áttina. Birgittu einni tókst ekki að koma á formlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Valtað yfir þingið

Sjaldan, ef nokkru sinni, hefur hópur fólks farið í jólafrí jafn ánægt með sjálft sig og þingmenn gerðu fyrir þessi jól - af jafn litlu tilefni. Ég ætla þó alls ekki að efast um að þingmenn hafi verið duglegir að sinna þeim verkum sem ríkisstjórnin fól þeim. Vinnubrögð þingsins við afgreiðslu stórra mála voru hins vegar ekki til eftirbreytni og verða vonandi aldrei aftur með þeim hætti.

Gleðileg jól!

Við á ritstjórn bvg.is ætlum að vera heldur róleg um jólin og halda þau í friði og ró. Við komum tvíefld til baka að óhófinu loknu.
Gleðileg jól!

Spennan í störfum þingsins

Breytingartillögur fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er í takt við það sem áður hefur verið, aukning um 1,5% í útgjöldum. Ekkert nýtt í því.
Ef marka má fréttir virðist eina spennan í störfum þingsins nú vera hvort þinginu ljúki fyrir jól eða hvort þingmenn þurfi að mæta aftur milli jóla og nýárs til að klára það sem klára þarf. Forseti Alþingis hefur reyndar bent á að  „enginn stór skaði yrði þótt þing yrði kallað saman milli jóla og nýárs.“
Ég er sammála því.

 

Viðreisn í réttu ljósi

Fyrsta þingmál sem farið hefur um hendur Benedikts Jóhannessonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar var lagafrumvarp frænda hans, fjármálaráðherra, um jöfnun lífeyrisréttinda. Benedikt, sem jafnframt er formaður Viðreisnar, hefur afgreitt málið nánast óbreytt úr nefndinni til afgreiðslu þingsins. Það þýðir m.ö.o. að fjármálaráðherra (formaður sjálfstæðisflokksins) fær þetta þingmál sitt væntanlega lögfest fyrir jól.

Hvað er eiginlega að þessum þingmanni?

„Sjúkrahúsin á svæðinu eru alltaf opin fyrir því að taka á móti sjúklingum LHS en núna er það mikilvægara að hafa þá á göngum svo sjónvarpsmyndavélarnar og fréttamennirnir geti flutt ljótar sögur úr heilbrigðiskerfinu.“ Ásmundur Friðriksson, þingmaður sjáflstæðisflokksins.

Hárrétt hjá Ólöfu Nordal

 „Mín óskaniðurstaða er bara þessi, að við náum starfhæfri og góðri ríkisstjórn sem getur tekist á við þessi verkefni, að halda stöðugleika í landinu og hefja uppbyggingu í innviðahlutum. Og þar erum við að sjálfsögðu að tala um heilbrigðismál, samgöngu- og ferðamál og slíka hluti.“

Þetta er hárrétt lína hjá Ólöfu Nordal. Stjórnmálamenn þurfa að einbeita sér að því að mynda ríkisstjórn um fá stór og mikilvæg verkefni. Annað má bíða að sinni. ​Það mun auðvelda myndun nýrrar stjórnar, gera störf hennar markvissari og síðast en ekki síst efla þingræðið.
Sá tími er liðinn að mynda þurfi ríkisstjórnir um öll mál stór og smá.

Framsóknarflokkurinn í heila öld

Framsóknarflokkurinn er 100 ára í dag og er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Það segir ýmislegt um seigluna í þessum aldargamla flokki að nú í kjölfar verstu kosningaúrslita hans í hundrað ár er meira en líklegt að hann gæti spilað stóra rullu í myndun næstu ríkisstjórnar. Líkur á að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, ávarpi landsmenn á síðasta degi ársins vaxa með hverjum degi sömuleiðis. Það er ansi skemmtilegt í ljósi þess að sá varð eiginlega formaður og forsætisráðherra fyrir slysni fyrr á árinu.
Allt um það!
Ég óska framsóknarfólki um allt land til hamingju með flokkinn sinn á aldarafmælinu.

 

Ógn við Landspítalann

Það er hægt að taka undir allt sem fram kemur í þessari yfirlýsingu læknaráðs Landspítalans. Það er sömuleiðis það sem forstjóri Landspítalans hefur sagt af sama tilefni.
Almennt virðast stjórnmálamenn ekki áttasig á því hvað staðan í þessum málaflokki er alvarleg. Þeir sem hins vegar gera það eru úthrópaðir fyrir að vera gamaldags, hallærislegt, afturhald.

Þingið þarf að hafa vit fyrir ríkisstjórninni

Nýsamþykkt samgönguáætlun er ófjármögnuð samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og framsóknar. Það þýðir að verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt verður ekki ráðist í nauðsynlegar samgöngubætur í landinu. Meðal þeirra stóru verkefna sem ríkisstjórnin vill slá af eru upphaf framkvæmda við Dýrafjarðargöng eins og komið hefur fram í fréttum. Það hefur minna verið rætt um Dettifossveg frá fossi og norður sem er afar brýn og nauðsynleg framkvæmd fyrir atvinnulífið á Norðurlandi.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS