Viðreisn í réttu ljósi

Fyrsta þingmál sem farið hefur um hendur Benedikts Jóhannessonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar var lagafrumvarp frænda hans, fjármálaráðherra, um jöfnun lífeyrisréttinda. Benedikt, sem jafnframt er formaður Viðreisnar, hefur afgreitt málið nánast óbreytt úr nefndinni til afgreiðslu þingsins. Það þýðir m.ö.o. að fjármálaráðherra (formaður sjálfstæðisflokksins) fær þetta þingmál sitt væntanlega lögfest fyrir jól.
Það er engin sátt um málið í samfélaginu. Hvorki BSRB né KÍ geta sætt sig við samþykkt þess að óbreyttu líkt og Engeyjarfrændurnir vilja að gert verði. Málið sjálft, þ.e. jöfnun réttinda er ágætt sem slíkt en frumvarpið sem frændurnir vilja lögfesta í andstöðu við þá sem það varðar mun leiða til skertra kjara þúsunda opinberra starfsmanna, verði það samþykkt samkvæmt þeirra óskum.
Þetta er athyglisvert ekki síst fyrir þá sem hafa freistast til að líta á Viðreisn sem frjálslyndan og umbótasinnaðan miðjuflokk.
Það er langur vegur frá því að svo sé.