Klókindi Óttars Proppé

Óttarr Proppé og félagar í Bjartri framtíð eru harðlega gagnrýndir fyrir tvennt. Annars vegar fyrir að renna fyrirstöðulítið saman við Viðreisn og hitt að reyna stjórnarmyndun við sjálfstæðisflokkinn. Þetta er þó bæði skiljanlegt og klókt hjá Óttari og félögum að mínu mati.
Fyrir það fyrsta lifði Björt framtíð rétt naumlega af í kosningunum, fékk fjóra þingmenn kjörna. Þeir eru einir og sér ekki líklegir til að hafa mikil áhrif. Það var því í raun bráðnauðsynlegt fyrir flokkinn að finna sér makker eftir kosningarnar til að auka áhrif sín. Við það styrktist staða Bjartrar framtíðar mjög, reyndar svo mikið að flokkurinn er við það að setjast í ríkisstjórn og hafa áhrif sem slíkur.

Sjómenn í verkfall!

Sjómenn eru farnir í verkfall. Það gera þeir ekki að gamni sínu heldur af illri nauðsyn eftir að hafa verið samningslausir í nærri 6 ár. Það er þyngra en tárum taki að útgerðarmenn hafi frekar kosið að láta sigla fiskiskipaflotanum í land í stað þess að semja við sjómenn. Eftir því sem mér skilst strandar á því að útgerðarmenn neiti að semja við sjómenn um eðlilega mönnun á skipum sínum sem að mati sjómanna eru undirmönnuð.

Trump áhrif á Íslandi?

Ef kosningarnar í USA hefðu legið fyrir áður en Íslendingar kusu til Alþingis hefði það haft áhrif á úrslit kosninganna og þá hver?
Nú þegar niðurstaðan í USA liggur fyrir gæti það haft áhrif á stjórnarmyndunarviðræður hér heima og hvernig ríkisstjórn verður á endanum mynduð?

Kennarar og kjararáð

Ákvörðun kjararáðs um laun embættismanna og þingmanna endurspeglar launaþróun hjá hæst launuðustu embættismönnum landsins. Ákvörðunin er að því leytinu til rökrétt. Hún er hins vegar í engu samræmi við launaþróun annarra stétta, t.d. kennara.
Það er varasamt að ætla að tengja ákvörðun kjararáðs við launabaráttu kennara eins og borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins gerir. En furðulegra er þó innlegg þingmanns Pírata sem er á jaðri pólitísks lýðskrums.

Erfið kjarabarátta

Sjómenn fara í verkfall 10. nóvember nema útgerðarmenn hafi samið við þá fyrir þann tíma. Sjómenn hafa verið samningslausir í nærri sex ár og fátt sem bendir til þess sem stendur að það sé að breytast, því miður. Útgerðarmenn eru harðsnúnir í samningum sem endranær. Þeir velja gjarnan til forystu fyrir sig fólk sem virðist færara um að keyra deilumál í harðan hnút í stað þess að finna leiðir til lausna á þeim.

Skilaboð frá kjósendum

Þetta eru að mörgu leyti ágætar pælingar hjá Kjarnafólkinu eins og vænta mátti, fyrir utan fyrirsögnina.
Það lá ljóst fyrir í aðdraganda kosninga að ekki yrði mynduð ríkisstjórn færri en þriggja flokka eftir kosningar. Skilaboð kjósenda til stjórnmálamanna voru að þeir ættu að ræða saman til lausna, þvert á flokka. Það kallar á málamiðlanir, það kallar á markvissa vinnu um að ná utan um verkefni sem verður að leysa. Þetta vissu kjósendur fyrir kosningar. Það eru því engin vörusvik af hálfu stjórnmálamanna í því að miðla málum sín á milli. Þvert á móti reynir nú á stjórnmálamenn að gegna kjósendum og finna leiðir til að stjórna landinu á grunni þeirra skilaboða sem kjósendur sendu þeim í kosningunum.
Það er verkefni þeirra í dag.

Airwaves

Það leynir sér ekki að það er mikið að gerast í Reykjavík líkt og oft áður. Nú er það Airwaves tónlistarhátíðin sem lífgar upp á tilveruna.
Gert er ráð fyrir að allt að 5-6.000 erlendir gestir komi á hátíðina og 3-4.000 innlendir, auk mikils fjölda á off-venue dagskrána. Þessir gestir bera hróður hátíðarinnar og landsins út um allan heim. Airwaves undirstrikar enn og aftur mikilvægi tónlistar og menningar í samfélaginu öllu; menningar- og atvinnulífinu. Menningin og menningartengd starfsemi er auk þess mjög efnahagslega mikilvæg fyrir landið þótt hún njóti enn ekki sannmælis sem slík.
En það kemur að því.

Rangur sigurvegari krýndur

Það er undarleg kenning að sjálfstæðisflokkurinn sé sigurvegari kosninganna þó hann hafi í ljósi aðstæðna fengið góða kosningu. Niðurstaða kosninganna á laugardaginn er reyndar ein af þeim verstu í sögu flokksins. Af þeim flokkum sem unnu á í kosningunum vann sjálfstæðisflokkurinn minnst, hvort sem litið er til hlutfallslegrar aukningar eða fjölda þingmanna. Að auki þá féll ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn getur því ekki gert nokkra kröfu um að leiða næstu ríkisstjórn með vísan til kosningaúrslita.
Kjósendur vilja það ekki.

Almenn launaþróun?

Samkvæmt launaseðli mínum frá 1. nóvember 2009 var þingfararkaupið mitt 520.000-. Frá þeim tíma hafa þau hækkað í 1.101.194- krónur. Það er hækkun um 111,8%.
Nú hef ég ekki gáð sérstaklega að því hvernig launaþróun hefur verið almennt í þjóðfélaginu á þessu tímabili.
Reikna bara með því að hún sé svipuð.
Annað væri skrýtið.

Spilling ekki áhyggjuefni?

Kosningarnar í dag eru engar venjulegar kosningar. Þær er til komnar vegna þess að ríkisstjórn hægriflokkanna féll vegna spillingar. Af fjórum ráðherrum ríkja Evrópu sem nefndir voru í Panamaskjölunum voru þrír íslenskir. Einn þeirra var forsætisráðherra landsins. Annar var og er fjármálaráðherra og sá þriðja var og er enn ráðherra dóms- og kirkjumála. Þeir munu allir verða endurkjörnir í dag. Allir munu þeir svo síðar í kvöld eða nótt lýsa yfir einhvers konar sigri. Það eru talsverðar líkur á því að þeir verði allir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS