Ráðherra þetta og ráðherra hitt

Hún er dálítið undarleg umræðan um hvað ráðherrar segjast hafa ákveðið og hvað ekki. Ráðherra tekur ákvörðun um að ráðast í opinbera byggingu, ráðherra tekur ákvörðun um framkvæmdir, ráðherra ákveður að hætt skuli við framkvæmdir, ráðherra ákveður að breytt skuli um stefnu, ríkisstjórn tekur ákvörðun um að fjármagna skuli með einum eða öðrum hætti. Ráðherra ákveður hitt og ríkisstjórnin ákveður þetta. Eða svo er sagt.

Þetta er bara ekki alveg svona einfalt. Það er Alþingi sem mótar stefnuna. Það er Alþingi sem ákveður. Það er Alþingi sem ráðstafar fjármunum. Ráðherrar og ríkisstjórn annast svo um framkvæmdina.

Þetta var lengst af með öðrum hætti en reyndist ekki mjög vel.

Eitthvað hljótum við að geta lært af fortíðinni.

Það er aðeins einn aðal ...

Ég fór í gær á afmælistónleika Björgvins Helga Halldórssonar í Hofi á Akureyri. Þetta voru fyrstu tónleikarnir sem hef farið á með Björgvini, svo ótrúlegt sem það nú hljómar. Ég á reyndar mikið af tónlist með honum á diskum og plötum sem mikið hefur verið hlustað á.

Það er skemmst frá því að segja að þetta voru snilldar tónleikar hjá meistaranum, hljómsveitin frábær og hann sjálfur í mögnuðu formi.

Ég veit ekki hvort það er aldurinn (á mér) eða eitthvað annað, skiptir ekki öllu máli, en í mínum huga er Björgvin Halldórsson yfirburðamaður í íslenska tónlistarheiminum og langt í það að einhver komist með tærnar þar sem hann var með hælana í gær. Næst á eftir honum kemur líklega Óli Palli á RÁS 2 sem hefur haft gríðarleg áhrif á tónlistarlífið hér á landi í gegnum RÚV.

En Björgvin er aðal og enginn annar.

Tvö dæmi um frekju og yfirgang

Fyrirsögn þessarar fréttar er ekki allskostar rétt. Eigandi hraðbrautar má taka eins marga nýnema inn í skólann eins og hann getur narrað til náms hverju sinni. En almenningur, skattgreiðendur verður ekki látnir bera kostnaðinn af því eða frekari arðgreiðslum til eigandans.

Eigendur Kvikmyndaskólans vissu það um síðustu áramót að fjármál skólans stefndu í óefni og samningur við menntamálaráðuneytið um áframhaldandi ríkisstyrki rynni út um mitt ár. Samt upplýstu þeir ekki nemendur skólans um stöðuna og veittu þeim eða öðrum jafnvel ekki réttar upplýsingar um raunverulega stöðu fyrirtækisins. Nú geta þeir ekki staðið við áður gefin loforð um áframhaldandi skólastarf og að útskrifa nemendur, sem ættu auðvitað að geta sótt rétt sinn til skólans og eigenda hans.

En eigendurnir þessara tveggja fyrirtækja krefjast þess hinsvegar að fyrirtæki þeirra fái ríkisaðstoð til við að halda áfram rekstri sem ekki á sér rekstar grundvöll.

Gegnheill í öllum sínum gerðum

Það verður aldrei annað sagt um sjálfstæðisflokkinn en að hann er heill og óskiptur í öllum sínum gerðum og sér og sínum trúr út yfir gröf og dauða.

Það er eitthvað svo traustvekjandi að vita af einhverju sem aldrei bilar, er alltaf eins og hægt er að ganga að sem vísu hvernig sem heimurinn hvolfist og fer.

Fjárfestar í setuverkfalli

Það hefur verið mikil umræða um það síðustu árin að ríkið, þ.e. almenningur beri ekki ábyrgð á skuldum einkaaðila. Þetta hefur verið ríkjandi í umræðunni um endurbyggingu fjármálakerfisins, endurskipulagi fyrirtækja og síðast en ekki síst var hávær umræða um þetta í Icesave-málinu. Það er margt til í þessu. Ríkissjóður hefur ekki verið að sóa fjármunum í fyrrum eigendur banka eða fjármálafyrirtækja. Aðkoma ríkisins að fjármálastofnunum og tryggingarfélögum hefur eingöngu snúist um að verja hagsmuni almennings, viðskiptavina og samfélagsins alls.

Málefnastaða ríkisstjórnarinn hefur styrkst

Yfirlýsingar Guðmundar Steingrímssonar í kjölfar úrsagnar hans úr hinum ramm íslenska framsóknarflokki munu koma til með að styrkja málefnastöðu ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Guðmundur segist ekki vilja sjá ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar komast aftur til valda. Hann segist vilja sjá ESB umsóknina leidda til lykta og þjóðin ráði síðan örlögum sínum um það mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðmundur telur nauðsynlegt ráðast í endurskipulag í rekstri ríkisins og stofnunum þess og hann segist munu styðja ríkisstjórnina til allra góðra verka hér eftir sem hingað til. Svo fátt eitt sé nefnt.

Guðmundur Steingrímsson hefur sannarlega ekki gengið til liðs við ríkisstjórnina né lýst fyrir skilyrðislausum stuðningi við hana. Stjórnin stendur óbreytt áfram sem og þinglið hennar.

En málefnastaða hennar hefur styrkst og það er líklegra en áður að hún nái meginmarkmiðum sínum í gegn en áður. Að sama skapi hafa þeir misst fótfestuna sem reynt hafa að standa í vegi fyrir því að samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna nái fram að ganga.

Á því er ekki nokkur vafi.

Áríðandi um hæð mína og þyngd

Af gefnu tilefni finnst mér rétt að taka það fram að við síðustu athugun vó ég 89 kg og mældist slétta 188 sentimetra í það heila, frá toppi til táar. Ég hef haldið mig þann góða matarkúr að éta allt sem tönn á festir, líka útlenskan mat – þó allt í hóflegu magni.

Aðrar upplýsingar um mig og mitt er að finna á heimasíðu þingsins.

Kaghýðing

Rassskelling er orð sem oft er notað í óeiginlegri merkingu, nokkurskonar myndlíking. Til dæmis er stundum talað um að einhver hafi verið rassskelltur í meiningunni að hann hafi fengið á baukinn, verið veitt verðskulduð ráðning, rangindi rekin ofan í viðkomandi eða viðkomandi verið staðin að rangindum.

Það er til annað orð, heldur sterkara í þessu sambandi. Það er KAGHÝÐING.

Það er rétta orðið yfir þá yfirhalningu sem fulltrúar sjálfstæðisflokksins fengu frá gestum viðskiptanefndar um málefnum Sjóvar, SpKef og Byr, sem var að ljúka rétt í þessu.

Annars má benda á að boðað hefur verið til þriggja daga fundar í haust þar sem allir innanbúðarmenn framangreindra félaga verða samankomnir og ættu að geta upplýst um málið frá fyrstu hendi. Þar geta menn fengið allar upplýsingar um hvernig Flokksmönnum tókst að eyðaleggja þessi þrjú félög með tilheyrandi afleiðingum.

Margt jákvætt í skýrslu Seðlabankans

Ég er ósammála ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti um 25 punkta í dag og átta mig ekki á hvernig sú ákvörðun eigi að hjálpa til í efnahagslífi landsmanna. Að mati Seðlabankans má rekja ástæðu aukinnar verðbólgu fyrst og fremst til nýgerðra kjarasamninga auk verðhækkana á innfluttum aðföngum. Seðlabankinn mun þurfa að færa betri rök fyrir því að 25 punkta hækkun stýrivaxta sé nauðsynleg við slíkar aðstæður en gert hefur verið.

Í skýrslu peningastefnunefndar er hinsvegar margt annað sem vert er að skoða og margar vísanir til þess að viðsnúningurinn sé hafin fyrir alvöru.

Skattaskjólið Ísland

Pólitísku inniflin í hægrimönnum snúast yfirleitt við þegar þeir heyra minnst á skattlagningu fyrirtækja. Í tíð sjálfstæðisflokksins voru skattar á fyrirtæki lækkað langt niður fyrir það sem þekktist í viðmiðunarlöndum okkar. Markmiðið var að laða erlend fyrirtæki til Íslands og síðan áttu molarnir af þeirra borðum að seðja íslenskan almenning. Það varð lítið úr því og Ísland varð aldrei ríkasta land í heimi.

Nú halda menn því fram að verið sé að ganga að fyrirtækjum dauðum með óhóflegri skattpíningu og enginn vilji fjárfesta á Íslandi vegna ofurskattastefnu stjórnvalda. Þó er það þannig að skattar á atvinnustarfsemi á Íslandi eru nú rétt að nálgast það sem annarsstaðar gerist.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS