Fjárfestar í setuverkfalli

Það hefur verið mikil umræða um það síðustu árin að ríkið, þ.e. almenningur beri ekki ábyrgð á skuldum einkaaðila. Þetta hefur verið ríkjandi í umræðunni um endurbyggingu fjármálakerfisins, endurskipulagi fyrirtækja og síðast en ekki síst var hávær umræða um þetta í Icesave-málinu. Það er margt til í þessu. Ríkissjóður hefur ekki verið að sóa fjármunum í fyrrum eigendur banka eða fjármálafyrirtækja. Aðkoma ríkisins að fjármálastofnunum og tryggingarfélögum hefur eingöngu snúist um að verja hagsmuni almennings, viðskiptavina og samfélagsins alls.

Nú gerist það að fjárfestar í fyrirtæki sem notið hefur ríkisframlaga um nokkurra ára skeið krefst þess að skattgreiðendur leggi meira af mörkum til rekstur fyrirtækisins og ríkistryggi fjárfestingu þeirra. Fjárfestarnir sem segjast vera um 60% af fjárfestum fyrirtækisins krefjast þess að ríkið tryggi rekstur fyrirtækisins og þar með fjárfestingu þeirra í því. Þeir eru í setuverkfalli til að undirstrika málstað sinn. Setuverkfallinu er ekki beint gegn fyrirtækinu sem fjárfest var í heldur gegn íslenskum skattgreiðendum. Sömu skattgreiðendum og fjármagnað hafa Lánasjóð íslenskra námsmanna sem líklega hefur lánað fjárfestunum (einhverjum þeirra hið minnsta) til að fjárfesta í fyrirtækinu. Þetta er undarleg afstaða að mínu mati og þvert ofan í vilja þjóðar sem hefur nýverið brennt sig illilega á þeim hugsunarhætti sem þarna býr að baki. Nám á að tryggja. Það er góð fjárfesting í námi. Fyrirtækjarekstur er allt annað mál.