Margt jákvætt í skýrslu Seðlabankans

Ég er ósammála ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti um 25 punkta í dag og átta mig ekki á hvernig sú ákvörðun eigi að hjálpa til í efnahagslífi landsmanna. Að mati Seðlabankans má rekja ástæðu aukinnar verðbólgu fyrst og fremst til nýgerðra kjarasamninga auk verðhækkana á innfluttum aðföngum. Seðlabankinn mun þurfa að færa betri rök fyrir því að 25 punkta hækkun stýrivaxta sé nauðsynleg við slíkar aðstæður en gert hefur verið.

Í skýrslu peningastefnunefndar er hinsvegar margt annað sem vert er að skoða og margar vísanir til þess að viðsnúningurinn sé hafin fyrir alvöru.

Í skýrslunni má sjá að vöxtur landsframleiðslu frá sama tíma og í fyrra nam 3,4% sem er mesti hagvöxtur frá byrjun árs 2008. Þessi vöxtur er mun meiri en áður hafði verið spáð eins og sjá má í aprílhefti nefndarinnar þar sem gert var ráð fyrir 0,8% hagvexti. Í skýrslunni kemur einnig fram að einkaneysla hefur aukist meira en gert var ráð fyrir og útlit sé fyrir töluvert meiri vöxt á öðrum fjórðungi ársins en búist hafði verið við. Það má sömuleiðis sjá að veruleg aukning hefur orðið í verslun innanlands og að einkaneysla hafi aukist um 7% frá sama tíma og í fyrra. Eins og fram kemur í skýrslunni er ljóst að nýgerðir kjarasamningar munu auka útgjöld ríkissjóðs umtalsvert sem bregðast þarf við með einum eða öðrum hætti. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt aðkomu ríkisins að kjarasamningunum og jafnvel talið þá ofrausn við íslenskt launafólk. Því er ég algjörlega ósammála og tel að þeir muni þegar fram líður skila sér í auknum umsvifum eins og peningastefnunefndin bendir réttilega á að hafi þegar gerst.

Í skýrslu nefndarinnar er gert ráð fyrir því að atvinnufjárfestingar muni verða meiri á þessu ári en spáð var í apríl og hagvöxtur í ár verði tæp 3% í stað 2,1% eins og gert hafði verið ráð fyrir. Seðlabankinn spári nú 3,7% hagvexti á næsta ári sem er 1% meira en áður var gert ráð fyrir að yrði. Niðurstöður Vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar benda til þess að atvinna hafi aukist um 1% milli ára á öðrum fjórðungi ársins en í síðustu spá var gert ráð fyrir rúmlega 3% samdrætti. Viðsnúningur á vinnumarkaði virðist því snarpari en áður hafði verið spáð, eins og segir í skýrslu peningastefnunefndar Seðlabankans.

Það er því margt jákvætt að finna í skýrslu peningastefnunefndar sem ástæða er til að gleðjast yfir, þó vaxtahækkunin hafi verið óráð að mínu mati.