Absolutely absurd

Sagt er frá landsdómsmálinu á vef Al Jazeera í morgun. Þar má sjá og heyra kostulegt viðtal við Bjarna Benediktsson formann sjálfstæðisflokksins. Þar segir hann frá Hruninu eins og um minniháttar  atburð hafi verið að ræða sem óþarfi sé að gera mikið mál úr. Hrunið hafi í rauninni ekki verið neitt annað en smávægileg lífkjaraskerðing og fáránlegt að ætla að stjórnmálamenn beri nokkra ábyrgð á því.

„If living standards in one country goes down it dose not automatically meen that criminal court case should be brought over a politician, It´s absolutely absurd.“

Já, hversu fáránlegt er það ekki?

Björguðum Íslandi!

Kristján Þór Júlíusson er ágætur náungi. Virkar kúl en er sauðmeinlaus að öllu jöfnu. Svo er hann orginal norðanmaður sem er gæðastimpill sem ekki verður af honum tekinn.

Kristján Þór var í viðtali á Bylgjunni í gær þar sem hann var að böggast út í ríkisstjórnina sem hann sagði ekki vera líklega til afreka. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi sagði hann stjórnina ekki hafa burði til þess að takast á við stóru málin, t.d. Evrópusambandið, fiskveiðimálin og stjórnarskrármálið. Nú er það svo að engin þessara mála rúmast innan áhugasviðs sjálfstæðisflokksins heldur þvert á móti berst flokkurinn gegn þeim á öllum vígstöðvum. Kannski má skilja áhyggjur Kristjáns Þórs sem stefnubreytingu varðandi þessi stóru mál og hann sé tilbúinn til að veita stjórninni þann norðlenska styrk sem hún þarf á að halda vegna þeirra?

Kristján Þór sendir síðan samþingmönnum sínum tóninn og segir þá orkulausa og gjörsamlega búna að tæma batteríin og ekki þjóðinni bjóðandi.

Króna eða hvað?

Er íslenska krónan ástæða efnahagshrunsins haustið 2008?

Nei, vondri efnahagsstjórn var þar um að kenna. Það skiptir litlu máli hvað gjaldmiðilinn heitir. Það skiptir öllu máli hvernig honum er stjórnað. Um það vitnar efnahagsástandið í öðrum löndum, t.d. Írlandi, Grikklandi, Portúgal og Bretlandi svo dæmi séu nefnt.

Er íslenska krónan framtíðargjaldmiðill Íslands?

Nei, það er hún ekki. En krónan verður gjaldmiðill okkar í næstu framtíð, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Til lengri framtíðar litið munu við hinsvegar þurfa á traustari gjaldmiðli að halda.

Mun evran verða sá gjaldmiðill?

Það er líklegast miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Við eigum mesta samleið með öðrum löndum Evrópu, þangað seljum við mest af útflutningi okkar og þaðan flytjum við mest inn af vörum. Það væri því órökrétt að taka annan gjaldmiðil upp en þann sem við notum hvað mest, ef á annað borð á að gera það.

Landsdómsmálið fær aukinn stuðning

Alþingi ákvað í morgun að standa við fyrri ákvörðun þingsins um að ákæra fyrrum formann sjálfstæðisflokksins fyrir þær sakir sem á hann voru bornar í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem síðar voru staðfestar af sérstakri þingnefnd, kenndir við Atla Gíslason. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í morgun var afdráttarlaus, 33 þingmenn töldu rétt að halda málinu áfram en 27 vildu hætta við. Þannig hefur stuðningur við málssóknina aukist frá árinu 2010. Þingmenn úr öllum flokkum, nema sjálfstæðisflokknum studdu áframhald málsóknarinnar. Það sýnir betur en flest annað að í augum sjálfstæðismanna er um að ræða pólitísk réttarhöld gegn einum af þeirra kyni en ekki dómsmál byggt á góðum gögnum og af vandlega hugsuðu máli.

Allt undir borðið!

Örlög tillögu formanns sjálfstæðisflokksins um að falla frá málsókn Alþingis gegn fyrrum formanni sjálfstæðisflokksins ráðast í dag. Verði tillagan samþykkt felur það ekki aðeins í sér að stjórnálamenn hafi ákveðið að losa sjálfa sig undan ábyrgð á Hruninu og afleiðingum þess heldur fylgir meira með í pakkanum. Meðal þess er að öll undirgögn málsins, þau sem saksókni og vörnin byggjast á verða lokuð inni í 30 til 80 ár, eftir eðli þeirra. Ef Alþingi ber hinsvegar gæfu til þess að láta Landsdóm ljúka sínu verki verður það gert í heyranda hljóði strax í næstu viku og öll málsgögn þar með lögð fram og gerð aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á þeim.

"Hættu þessum lygum, Jón Gunnarsson"!

Í umræðum á Alþingi í dag ræddi Jón Gunnarsson um mótmælin sem fram fóru á Austurvelli og um allt land veturinn 2008/2009 og urðu að lokum til þess að ríkisstjórn sjálfstæðisflokksins fór frá völdum. Jón, eins og aðrir sjálfstæðismenn vilja ekki trúa því að fólkið í landinu hafi snúist gegn þeim af  fúsum og frjálsum vilja heldur að fólkinu hafi verið stýrt í gegnum GSM síma af þingmanni eða þingmönnum sem þó eru ekki nefndir á nafn. Jón fór frjálslega með í ræðu sinni, vægast sagt og fékk af þeim sökum fram í köll úr sal þar sem hann var beðinn um að hætta að ljúga. „Hættu þessum lygum, Jón Gunnarsson“ var hrópað í þrígang undir ræðu þingmannssins.

En það dugði ekki til. Jón hélt bara áfram.

Eftir stendur spurningin um hvað forseti Alþingis getur gert til að stöðva þingmann sem tekur ekki leiðsögn úr þingsal um að hætta að ljúga.

Segðu mér hverjir vinir þínir eru ...

Það er alltaf notalegt að fá góðar kveðjur á tímamótum í lífinu. Afmæliskveðjur eru að því leiti frábrugðnar öðrum að merking þeirra dýpkar með árunum og aldurinn færist yfir. Þeim fylgir oftast meiri vinarhugur en á barnsaldrinum enda hafa viðkomandi þá öðlast traust og skilning hvor á öðrum og eiga sömuleiðis oftast að baki mörg ár samferða í súru og sætu.

Vinir segja meira um mann sjálfan en flest annað eins og má m.a. sjá á þessu skemmtilega myndabandi sem mér var bent á.

Rétt hjá Geir Jóni!

Það er rétt sem varaformannsefni sjálfstæðisflokksins heldur fram að þingmenn hafi reynt að hafa áhrif á mótmæli almennings við Alþingis.

Þingmaður einn gekk meira að segja svo langt að skrifa opinbert bréf til flokksmanna sinna þar sem hann hvetur til mótmæla við setningu þingsins sl. haust og gefur þar í skyn að óvíst sé um hvort lögreglan verði til varnar þingmönnum eins og sumir lögreglumenn höfðu gefið í skyn. Flokksmenn gætu því átt greiða leiða að stjórnarliðum, tækifæri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Það ætti að vera tiltölulega létt verk fyrir varaformannsefnið að rannsaka þessi atkvik enda allt innanbúðarmál hjá honum.

Annað þeirra innan veggja lögreglunnar og hitt á hinu pólitíska heimil hans í Valhöll.

Þrennt um það að segja ...

Bensínverð er hátt og verður hátt til framtíðar. Þetta vita allir – eða hér um bil allir. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa lagt fram tillögu á Alþingi um að ríkið greiði niður verð á bensíni og olíu þannig að það verði aldrei hærra 200 krónur. Breytir þar engu um hvort heimsmarkaðsverð hækkar (sem það mun gera) eða hvort íslensku söluaðilarnir hækki sitt framlag af seldum lítra (sem þeir munu gera.) 200 kall og ekki krónu hærra segja íslenskir sjálfstæðismenn. Þó varla nema fram yfir næstu kosningar eða svo.

Með þessu ætla snillingarnir að hækka ráðstöfunartekjur heimila, auka einkaneyslu, lækka vöruverð, styrkja landsbyggðina, lækka flutningskostnað, efla ferðamannaiðnaðinn, lækka skuldir heimila og fyrirtækja og auka hagvöxt.

Um þetta er aðeins þrennt að segja:

Lýðskrum.

Lýðskrum.

Lýðskrum.

Áhyggjufullt ævikvöld

Efnahagshrunið 2008 tekur á sig ýmsar myndir og engin þeirra fögur á að líta. Nú hefur það komið fram að veruleg fjölgun hefur orðið hjá eldra fólki sem er í verulegum vanskilum. Auknar skuldir í kjölfar Hrunsins auk skertrar lífeyrisgreiðsla af sömu ástæðum hefur leitt til þess að sumum eldri borgurum er ókleift að standa við skuldbindingar sínar og ná endum saman. Þeim fjölgar sem fara á eftirlaun með íbúðaskuldir á bakinu, íbúðalán sem stórhækkuðu í Hruninu. Þetta er ein af verstu afleiðingum þess vonda fjármálakerfis sem innleitt var hér á landi og leiddi til Hrunsins. Ungt fólk á þó ævina framundan og möguleika á því að vinna sig út úr vandanum þó það taki langan tíma og verði öllum þungbært. Eldra fólk sem þegar hefur skilað sínu og er farið út af vinnumarkaðinum er í verri stöðu hvað þetta varðar. Það var haft eftir upplýsingafulltrúa Umboðsmanns skuldara á dögunum að eldra fólk í þessari stöðu sé bæði dapurt og reitt og skilji ekki hvernig það geti verið komið í þessa stöðu eftir að hafa verið á vinnumarkaðinum öll þessi ár.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS