Gjaldþrot Landspítalans - afleiðing pólitískra ákvarðana

Landspítalinn átti hvorki peninga fyrir launum starfsmanna né lyfjum haustið 2008 eftir hrun bankanna og var kominn í greiðsluþrot.“ Þannig lýsir Hulda Gunnlaugsdóttir fyrrverandi forstjóri Landspítalans ástandinu á spítalanum í Hruninu haustið 2008. Allt rétt hjá Huldu og engu orði ofaukið. Þetta er nákvæmlega það sem blasti við okkur sem tókum við þrotabúi sjálfstæðismanna vorið 2009. Þetta er líka það sem sjá má í gögnum frá þessum tíma, t.d. í Ríkisreikningi 2009 (bls. 9 og 108) svo dæmi séu tekin. Þar sést vel hvernig búið var að fara með spítalann fjárhagslega árin fyrir Hrun þannig að hallinn á rekstri hans var orðinn nærri 3 milljarðar króna. Þannig hafði tekist að koma spítalanum í algjörlega vonlausa stöðu og keyra hann í þrot eins og Hulda Gunnarsdóttir bendir réttilega á. Það var ekkert í spilunum sumarið 2009 annað en að takast á við þennan vanda eins og annað sem Hrunið færði okkur. Hallinn á rekstri Landspítalans, 3 milljarðar króna var „frystur“, lagður til hliðar um stund á meðan tekist var á við að reyna að verja spítalann og rekstur hans. Undir stjórn Björns Zoëga og með samhentu átaki starfsfólks Landspítalans hefur það tekist eins vel og aðstæður hafa boðið upp á. Það átti við um fleiri stofnanir í velferðar- og menntakerfinu sem búið var að fara illa með í aðdraganda Hrunsins með röngum pólitískum ákvörðunum. Er það nema furða þó maður eigi stundum erfitt með sig undir ræðuhöldum þeirra sem bera ábyrgð á þroti Landspítalans og kenna öðrum um? Og er þá langt frá því allt upp talið.