Jákvæð skýrsla IFS um Vaðlaheiðargöng

IFS Greining hefur skilað fjármálaráðherra skýrslu um forsendur væntanlegra Vaðlaheiðarganga í samræmi við ákvörðun Alþingis þar um við afgreiðslu fjáraukalaga síðasta árs og fjárlaga 2012.

Niðurstaða IFS Greiningar er að allar helstu forsendur framkvæmdanna séu innan þeirra marka sem lög um framkvæmdirnar kveða á um, þ.e. að áætlanir um stofnkostnað og rekstur séu raunhæfar og áreiðanlegar. IFS Greining bendir þó á að styrkja þurfi eigið fé Vaðlaheiðarganga ehf. sem mun sjá um framkvæmdina til að treysta betur fjármögnun verkefnisins. Sömuleiðis er bent á að óvissa geti ríkt um endurfjármögnun verkefnisins sem ráðast þarf í þegar göngin hafa verið þrjú ár í rekstri. Þrátt fyrir þetta bendir IFS Greining á í skýrslu sinni að fjölmargir þættir geti einnig horft til betri vegar og létt undir með verkefninu.

Megin niðurstaða IFS Greiningar er hinsvegar sú að viðskiptaáætlun og helstu forsendur verkefnisins sé með þeim hætti að verkefnið standist þær kröfur sem gerðar eru til þess.

Það eru því að mati IFS Greiningar miklar lýkur á því verkefnið standi undir sér eins og gert hefur verið ráð fyrir.

Næstu skref hljóta því að vera þau að ljúka endanlega afgreiðslu þingsins á heimildum til að endurlána samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum og hefjast síðan handa við verkið sjálft.