Það þarf þá varla að ræða það meira?

Einar Kristinn Guðfinnson er glöggur maður og skýr. Hann er ágætur húmoristi og sér oft skemmtilegar hliðar á málum sem engin annar sér. Hann er reyndar ekki mikill stjórnmálamaður eins og á við um okkur fleiri sem sitjum á þingi. En það er ekki stór galli. Okkur er ágætlega til vina og ég held að við höfum lúmskt gaman hvor af öðrum. Mogginn birtir blogginn hans – gott ef ekki hvert einasta – og gerir þeim góð skil. Sem er ágætt því þau eru mörg hver ansi skondin. Nú bloggar félagi Einar um að Jóhanna Sigurðardóttir sé ófær um að leiða Samfylkinguna og að ríkisstjórnin hangi saman eingöngu til að komast hjá kosningum.

Það þarf þá væntanlega ekki að ræða það frekar? Best að hætta þessu bara og hleypa íhaldinu fyrirstöðulaust aftur inn í stjórnarráðið. Fylgja handritinu úr hinni ágætu mynd Inside Job.

Eða hvað?

Líklegra er þó að þessi skrif séu bara klassísk merki um stíflu í pólitísku nefi félaga Einars.

Þar sem ég fæ reglulega á baukinn fyrir að notast við myndir sem ég ýmist má ekki nota eða get ekki um hvaðan ég fæ, er rétt að taka fram að myndin hér að ofan er tekin af heimasíðu Einars Kristins sjálfs og sýnir hann éta eitthvað ofan í sig.