Samtrygging valdastéttarinnar

Þjóðkirkjan hefur í gegnum árin verið nátengd valdastéttinni á Íslandi og reyndar gegndi kirkjan hlutverki valdastéttarinnar fyrr á öldum. Kirkjan hefur þannig lengst af ýmist verið órjúfanlegur hluti valdastéttarinnar og oftast tekið sér stöðu með henni þegar á reynir. Það kom því ekki á óvart að Karl Sigurbjörnsson stillti sér og þar með kirkjunni sem stofnun upp við hliðina á rótgrónum valdaöflum landsins í hátíðarmessu í Dómkirkjunni í morgun.

Hann sagði það vera þjóðinni til skammar að krefjast uppgjörs við Hrunið. Hann kallar það þjóðarskömm að stjórnmálamenn kirkjunni þóknanlegir verði látnir gjalda gjörða sinni og axli þá ábyrgð sem þeir tóku sér á hendur í störfum sínum.

Þetta á í sjálfu sér ekki að koma nokkrum manni á óvart. Sjálfur hefur Karl biskup, rétt eins og forveri hans á biskupsstóli komið sér undan ábyrgð sem fylgdi vegsemd þeirra innan kirkjunnar. Þeir Karl Sigurbjörnsson og Ólafur Skúlason lögðu sig alla fram við að þagga niður fyrirlitleg ofbeldismál forystumanns kirkjunnar gagnvart mörgum konum. Karl var uppvís að lygum og reyndi að fá konurnar til að breyta framburði sínum. Ein þeirra var dóttir biskups. Er hægt að ganga lengra?

Allt þekktar aðferðir valdastéttarinnar – en til skammar fyrir þessa forystumenn kirkjunnar.

Í nærri tvo áratugi reyndi kirkjan að glíma við málið. Fyrst undir forystu Ólafs Skúlasonar sem naut stuðnings stéttarbræðra sinna innan valdastéttarinnar og síðar Karls Sigurbjörnssonar sem afskaði gerðir sínar sem „pennaglöp og mistök“ - en harmaði „mistökin“.  Báðir reyndu þeir að þagga málið niður. Báðum mistókst herfilega. Báðir hafa þeir skaðað þjóðkirkjuna til langs tíma með framgöngu sinni. Báðir hrökklast þeir svo úr embætti gegn eigin vilja. Rétt eins og forsætisráðherrann fyrrverandi sem nú er fyrir landsdómi vegna ábyrgðar sinnar við landsstjórnina.

Það er margt líkt með skildum innan gömlu valdastéttarinnar.