Veik staða Bjarna - stefnulaus og þverklofinn flokkur

Þeir sem héldu að einhverra tíðinda yrði að vænta frá landsfundi sjálfstæðisflokksins hljóta að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Stóru tíðindin eru þau að núverandi formaður rétt stóð af sér mótframboð og stendur veikari eftir en nokkru sinni. Í raun má segja að Bjarni Benediktsson hafi verið settur á bið á meðan leitin af nýjum formanni stendur yfir. Það eitt að hann skuli rétt slefa yfir 50% atkvæða á móti borgarfulltrúa sem situr í minnihluta eftir eina verstu útreið sem flokkurinn hefur fengið í borginni, segir meira en flest annað um veika stöðu hans og vandræðaganginn í flokknum.

Landsfundargestir tóku síðan tillögu að framtíðarstefnu flokksins til bæna, hentu úr henni því sem markverðast þótti og samþykktu síðan skjalið og segja það vísa til nýrrar framtíðar flokksins.

Eina markverða atkvæðagreiðslan sem fram fór um stefnumál flokksins, þ.e. um afstöðu flokksins til ESB var endurtekin þar til hún var forystunni þóknanleg. Eftir þær æfingar allar veit nú hinsvegar ekki nokkur sála hver raunveruleg stefna flokksins er í þeim málum.

Það sem vekur hinsvegar mesta athygli er að það voru fallnir foringjar hins gamla hrunaflokks sem áttu sviðið allt frá upphafi til loka fundar. Það voru þeir Sturla Böðvarsson, Davíð Oddsson, Geir Hilmar Haarde, Tómas Ingi Olrich, Geir Waage og fleiri álíka eldri íhaldsmenn sem tóku landsfundinn yfir og gerðu hann að þeirri fádæma samkomu sem hann á endanum varð.

Flokkurinn ræddi ekki fortíð sína með nokkrum hætti, lét hreinlega sem hann ætti sér ekki fortíð. Flokkur sem gerir ekki upp fortíðina á sér enga framtíð.

Þannig flokkur er sjálfstæðisflokkurinn í dag eftir þriggja daga landsfund, stefnulaus og þverklofinn í stærstu málum samtímans og leiddur áfram af svo til umboðslausum formanni.

Það er gæfulegt.