Aldeilis kraftur í honum Bjarna.

„Hann talaði mjög skýrt og hann talaði af miklum krafti“ sagði fréttamaður RÚV í kvöld og  „ (En)  hann svo að segja afreiddi ríkisstjórnina …“ bætti fréttamaðurinn svo við fullur eldmóðs rétt eins og þá væri málið bara dautt, ríkisstjórnin farin frá og víkingasveit haldsins mætt aftur grá fyrir járnum í stjórnarráðið.

En svo er nú aldeilis ekki og reyndar miklu líklegra en hitt að pólitískir dagar hins kraftmikla formanns séu senn taldir frekar en að hann komist til frekari áhrifa.

En um hvað snérist ræða Bjarna Benediktssonar? Í grófum dráttum um að ríkisstjórninni þyrfti að koma frá og sjálfstæðisflokknum væri lífsnauðsynlegt að komast sem fyrst til valda. Svo sem ekki við öðru að búast.

En hann vék líka að fleirum áhugaverðum þáttum sem lýsa vel þankaganginum í flokknum.

„Skammtímalausnir og óðagot var látið ryðja grundvallarreglum samfélagsins og gildum úr vegi. En það er eins og sumir hafi ekkert lært af því sem hér gerðist“ sagði Bjarni í ræðu sinni og er vel hægt að taka undir það þegar litið er til síðustu pólitísku afreka flokksins.

Og Bjarni reyndi að ímynda sér heiminn án sjálfstæðisflokksins og komst að þessari niðurstöðu:  „Ef hann væri ekki til í dag yrði hann stofnaður strax í fyrramálið, af sama fólki og er hér inni, um sömu hugsjónir og gildi, því að hann á svo sannarlega erindi, og það erindi er að leiða Ísland út úr villu og doða vonlausrar vinstristefnu - inn í nýtt og kröftugt framfaraskeið!“

Með öðrum orðum: Ef við fengjum tækifæri til þá myndum við endurtaka þetta allt saman nákvæmlega eins og við gerðum!

Og Bjarni gleymdi ekki smáfuglunum í ræðu sinni: „Það hefur verið sérstakt áhugamál núverandi stjórnvalda að ná sér niðri á fyrrverandi forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.

Það hefur ítrekað verið vegið að Davíð Oddssyni, fyrrverandi formanni okkar og farsælasta forsætisráðherra seinni tíma.“ (ATH: þetta er bein tilvitnun í ræðuna).

Jamm, þetta sagði formaður sjálfstæðisflokksins klökkum rómi um höfund hrunsins, þann sem knésetti Ísland efnahagslega, setti Seðlabanka Íslands á hausinn og á stærsta þátt í því að eyðileggja orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.

Bjarni formaður lýsti svo frati í þá niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnmálamenn bæru hugsanlega einhverja ábyrgð á hruninu. Það gerði hann með því að fordæma Alþingi fyrir að höfða mál gegn Geir H Haarde vegna ábyrgðar hans á því tjóni sem þjóðin varð fyrir vegna aðgerða- og aðgerðaleysis ríkisstjórna hans í aðdraganda hrunsins.

Já, hann það var aldeilis kraftur í honum Bjarna og hann talaði mjög skýrt eins og fréttamaðurinn sagði réttilega. Og hann var eins skýr og hann getur orðið, hann Bjarni.

Nú ætti það ekki að vefjast fyrir nokkrum manni að sjálfstæðisflokkurinn má ekki undir nokkrum kringumstæðum komast aftur til áhrifa.