Röng ákvörðun ofan í góðar fréttir

Í fjórða hefti  Peningamálum Seðlabankans sem komu út í dag er margt jákvætt að finna um stöðu efnahagsmála. Hagvöxtur er að mælast talsvert meiri en spáð hafði verið og öfugt við það sem áður var spáð er vægi fjárfestinga í auknum vexti meira en búst var við en einkaneyslu aftur á móti minni. Verðbólga er undir því sem spáð hafði verið og kaupmáttur aukist talsvert umfram áætlanir á árinu 2011. Að mati Seðlabankans er útlit fyrir næsta ár sömuleiðis betri en áður var ætlað sem er ekki síður mikilvægt og gæti haft jákvæð áhrif á vinnu við fjárlagafrumvarp næsta árs.  Atvinnuleysi er hinsvegar mikið og þrátt fyrir að það fari minnkandi þarf það að minnka enn hraðar og enn meira á næstu misserum.

Peningamál Seðlabankans vitna því til viðbótar öðru sem fram hefur komið um þessi mál á síðustu misserum um batnandi ástand og að við erum á réttri leið út úr vandanum sem fjármálaóstjórn síðustu áratuga færði okkur. Það er þó enn mikið verk óunnið og margir erfiðleikar enn sem sigrast þarf á.

Ofan í annars góðar fréttir af efnahagslífinu tók Seðlabankinn hinsvegar að mínu mati ranga ákvörðun með því að hækka vexti í dag. Þá ákvörðun sína verður Seðlabankinn að útskýra vel og rækilega eigi hann ekki að glata trúverðugleika sínum.