Neyðarlögin héldu - en samt hrundi allt!

Þeir eru til sem haldið því fram að staðfesting Hæstaréttar á gildi neyðarlaganna beri vitni um mikla stjórnvisku þeirra sem stóðu að þeirri lagasetningu. Það er jafnvel gefið í skyn að neyðarlögin hafi bjargað Íslandi frá mikilli hneisu og staðfesting þeirra fyrir Hæstarétti jafngildi sýknudómi yfir Geir H Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.

Vissulega skiptir það miklu máli að lög standist mál og falli ekki í Hæstarétti eins og hvert annað sprek. Og auðvitað var það mikilvægt að neyðarlögin fengu jákvæða niðurstöðu í Hæstarétti.

En skoðum þetta samt aðeins betur.

Þrátt fyrir neyðarlögin gerðist eftirfarandi hér á Íslandi (langt því frá allt upp talið):

  • Efnahagskerfi landsins hrundi  
  • Allir íslensku viðskiptabankarnir fóru á hausinn
  • Seðlabankinn fór á hausinn
  • Fjöldi sparisjóða fór á hliðina
  • Skuldir ríkissjóð margfölduðust
  • Nú fara 15% af ölum útgjöldum ríkisins í að greiða vexti af kostnaði hrunsins
  • Mikill fjöldi íslenskra fyrritækja fór á hausinn
  • Atvinnuleysi margfaldaðist fór í áður óþekktar hæðir
  • Eignir heimilanna brunnu upp til agna
  • Skuldir heimilanna stökkbreyttust til hins verra
  • Orðspor Íslands á alþjóðavettfangi féll til botns
  • Þáverandi stjórnvöld leituðu í örvæntingu eftir stórum lánum um allan heim en fengu ekki
  • Þáverandi stjórnvöld reyndu að komast yfir lífeyrissjóði landsmanna til að setja í hítina
  • Það var aðeins heppni að hvorugt tókst hjá þeim

Þrátt fyrir mikilvægi þess að neyðarlögin hafi staðist fyrri Hæstarétti og þannig tryggt innstæðueigendum forgang í þrotabú fjármálakerfisins – þá forðuðu þau okkur ekki frá hruninu haustið 2008 með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hafði fyrir land og þjóð.

Gildi neyðarlaganna er því engin syndaaflausn fyrir ábyrgðarmenn hrunsins eins og gefið hefur verið í skyn.