Góðar fréttir eða vondar?

Í gær tilkynnti forstjóri Alcoa á Íslandi þá ákvörðun fyrirtækisins að hætta við áform um að reisa álver á Bakka við Húsavík. Ákvörðun fyrirtækisins var fyrirséð og algjörlega óhjákvæmileg eins og forstjórinn benti á þegar hún var kynnt.

Í tilkynningu fyrirtækisins segir m.a. :

„Alcoa á Íslandi tilkynnti hagsmunaaðilum á Norðurlandi í dag að félagið væri hætt áformum um byggingu álvers á Bakka enda ljóst að ekki muni fást nægileg orka á samkeppnishæfu verði til álsversins. Einnig segir í tilkynningu Alcoa að ekki verði ráðist í framkvæmdir af hálfu fyrirtækisins, „ ... nema tryggt væri að næg orka fengist til álversins á viðunandi verði til framtíðar.“

Ákvörðun sína byggir Alcoa því annarsvegar á því að ekki sé til nægjanleg orka á svæðinu til að réttlætanlegt sé að ráðast í framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem fyrirtækið hafði hugsað sér og hinsvegar á því að fyrirtækið sé ekki samkeppnishæft um verð á þeirri orku sem til er og kann að finnast á svæðinu.

Í sjálfu sér eru þetta ekki nýjar fréttir með öllu. Það hefur lengi legið fyrir að Landsvirkjun hefur ekki haft þá orku í hendi til að selja sem Alcoa hefur talið sig þurfa að fá. Það er því engin söluvara á borðinu eins og forstjóri Alcoa bendir réttilega á.

Hitt er í sjálfu sér áhugavert að Alcoa telur sig ekki vera samkeppnishæft um verð á orkunni sem þegar er til og kann að finnast á orkusvæðum Þingeyjarsýslu. Það segir okkur að einhverjir eru tilbúnir til að greiða hærra verð en Alcoa, einhverjir eru tilbúnir til að koma að nýtingu orkunnar og greiða fyrir hana viðunandi verð að mati Landsvirkjunar.

Það eru góðar fréttir að samkeppni sé um orkuna og væntingar séu uppi um að sanngjarnt verð fáist fyrir hana. Það gefur sömuleiðis fyrirheit um atvinnuuppbyggingu við norðurlandi, byggða á raunhæfum kostum í stað þeirra skýjaborga sem reistar hafa verið á undanförum árum. Það er því nær að líta á ákvörðun Alcoa frá því í gær sem tækifæri til atvinnuuppbyggingar og að möguleikar hafi skapast í þeim efnum, frekar en að hætt hafi verið við eitthvað.

Niðurstaða þessa máls á að kenna okkur að skapa ekki óraunhæfar væntingar um auðveldar leiðir í atvinnumálum. Ábyrgð þeirra sem farið hafa fram með slíkum hætti hvað varðar atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum er því mikil.

Það er hinsvegar spurning hvort þeirri finni til þeirrar ábyrgðar.