Þau kostuðu okkur ellefu þúsund milljarða

Þrír þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um málshöfðun og skaðabótakröfu á hendur breska ríkinu, NATÓ og ESB vegna hryðjuverkalaganna sem sett voru á Ísland haustið 2008. Þremenningarnir gera kröfu um skaðabætur upp á 11.000 milljarða (ellefu þúsund milljarðar) sem þeir segja Ísland hafa skaðast á af þessum sökum efnahagslega, vegna laskaðrar ímyndar og þverrandi virðingar þjóðarinnar á erlendum vettvangi.

Þetta er merkilegt mál. Ekki síst vegna þess að þessir þrír sjálfstæðismenn (munum að einn þeirra þriggja var ráðherra í ríkisstjórninni sem leiddi okkur inn í hrunið) hafa nú lagt mat á tjónið sem aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi kallaði fram í viðbrögðum annarra þjóða gegn Íslandi. Ellefu þúsund milljarðar, segja þau þrjú. Það er talan sem þau segja tilraunina sem átti að gera Ísland að ríkasta land í heimi, kostaði okkur á endanum. Upphæðin lætur nærri að vera tuttuguföld ársútgjöld ríkisins eða sjöföld þjóðarframleiðsla. Þetta eru um 34 milljónir á hvern einasta íslending.

Nú þurfa þau þrjú að gera grein fyrir því hvernig þessi tala skiptist á milli efnahagslegs tjóns, ímyndarfallsins og virðingarleysisins sem Ísland uppskar á alþjóðavettvagni af þessum sökum.

Hvað meta þau ímynd Íslands á margar krónur? Hvað þarf mikla fjármuni til að endurheimta virðingu þjóðarinnar á erlendum vettvangi? Hvert var efnahagslegt tjón okkar af hruninu sem sjálfstæðisflokkurinn færði okkur haustið 2008?

Hvernig er krafan samansett, þessar ellefu þúsund milljarðar krónur sem sjálfstæðismennirnir þrír segja að hrunið hafi fært á herðar okkur?

Tillaga þremenninganna hlýtur að koma til áliti í því máli sem Landsdómur er nú að fást við.