Sjálfstæðisflokkurinn ræðst gegn Háskóla Íslands

Fulltrúi sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd lagði línurnar fyrir flokksmenn sína vegna aðkomu þingsins að Háskóla Íslands í fréttum í gær. Þar er því nánast heitið að flokkurinn muni ekki standa við gefin loforð um framlag ríkisins í sjóð sem settur var á fót í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Á sérstökum þingfundi sem haldin var 17. júní sl. var tillaga um stofnun prófessorsstöðu til heiðurs Jóni Sigurðssyni samþykkt m.a. af þingmönnum sjálfstæðisflokksins og þá lá einnig fyrir samkomulag um framlag í háskólasjóðinn sem sjáflstæðismenn hafa nú snúist gegn. Sjálfstæðismönnum mátti vera það ljóst að ætlunin var ekki að hafa þann sjóð tóman né févana enda höfðu talsmenn allra flokka, þ.á m. sjálfstæðisflokksins þá þegar lýst yfir stuðningi sínum við ákveðið upphafsframlag í sjóðinn.

En nú hefur línan verið lögð. Sjálfstæðismenn hyggjast ganga bak orða sinna, leggja stein í götu Háskóla Íslands og reyna að koma í veg fyrir að sjóðurinn sem stofnaður var í tilefni af hundrað ára afmæli Háskólans fái það fjármagn sem honum hafði verið heitið.

Þeim mun ekki verða af þeirri ósk sinni. Ekkert frekar en þeim mun takast að koma í veg fyrir byggingu hjúkrunarheimilanna sem þeir reyndu á dögunum.

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa tekið upp þá aðferð síns andlega pólitíska leiðtoga að ráðast af hörku á öll mál, góð sem slæm, tortryggja öll mál, góð sem slæm, koma í veg fyrir öll mál og þá helst það sem gott þykir. Markmiðið er það eitt að komast aftur til valda. Rétt eins og gamla foringjanum tókst.

Það fór nú ekki vel á endanum.