Góðar fréttir

Í gærkvöldi birtist skrýtin frétt á Stöð 2. Þar var sagt frá því að efnahagsáætlun stjórnvalda hefði seinkað um eitt ár frá upphaflegum markmiðum sem sett voru í upphafi kjörtímabils vegna verri afkomu í ríkisfjármálum.

Skoðum þetta aðeins betur.

Hvað gerum við í heimilisrekstrinum þegar léttir á og efnahagurinn batnar? Jú, við slökum aðeins á, drögum ekki jafn mikið úr útgjöldum og við reiknuðum með að þurfa að gera og drögum úr auka- eða yfirvinnu til að afla viðbótartekna. Við slökum aðeins á klónni og leyfum okkur meira vegna þess að það hafði gengið betur hjá okkur en við bjuggumst við.

Nákvæmlega þetta hefur verið að gerast hjá ríkinu. Það hefur gengið betur en við reiknuðum með og þurfum því hvorki að draga eins úr útgjöldum (skera niður) eða afla eins mikilla tekna (hækka gjöld og skatta) eins og áður var áætlað. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir hækkun skatta á almenning í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þess vegna er ekki gerð tillaga um að draga meira úr útgjöldum nema um 1,5 – 3% á næsta ári. Þessvegna hefur tekist að gera kjarasamninga við launafólk og þess vegna hefur nú í fyrsta skipti frá hruni tekist að bæta kjör bótaþega eins og talað hafði verið um að gert yrði um leið og létti á.

Önnur lönd sem hafa misst tökin á sínum málum eru að grípa til mjög harkalegra aðgerða, fjöldauppsagna, launalækkana, gríðarlegs niðurskurðar í velferðarkerfinu o.s.frv. Ekkert slíkt er að gerast hér. Ísland er eina ríkið sem ég þekki til sem hefur náð að fylgja áætlun frá árinu 2009 til dagsins í dag. Nú hefur þeirri áætlun verið breytt og seinkað um eitt ár.

Það er vegna þess að við höfum náð tökum á efnahagsmálunum og okkur hefur gengið betur en við sjálf reiknuðum með.

Seinkun efnahagsáætlunarinnar eru því í raun góðar fréttir fyrir landsmenn alla.

Á myndinn hér að ofan má sjá hvernig Ísland stendur í samanburði við Danmörk, Svíðþjóð og Finnland þegar þau lönd glímdu við sín mál.