Fjárlagafrumvarp 2012. Bitlaus stjórnarandstaða

Nú er að ljúka fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs. Þetta er án vafa þurrasta og flatasta umræða um fjárlög frá hruninu haustið 2008. Stjórnarandstaðan hefur hvergi fundið til fótanna í umræðunni, finna gagnrýni sinni ekki sannfærandi farveg og eru ósamstíga í öllum gerðum sínum.

Það er ekkert endilega mjög gott. Það er nauðsynlegt að fá sanngjarna og heiðarlega gagnrýni á frumvarp til fjárlaga hvers árs. Fjárlög eru stefnuyfirlýsing hverrar ríkisstjórnarn. Fjárlög fela það í sér hvernig stjórnvöld hyggjast ráðstafa fjármunum ríkisins á tilteknu tímabili sem hefur áhrif á alla landsmenn með einum eða öðrum hætti.

Víst er það svo að fjárlagafrumvarp næsta árs ber með sér að við erfiðleika er að glíma eins og á undanförnum árum. Frumvarpið er hinsvegar líka til vitnis um að stjórnvöld hafa náð tökum og það föstum tökum á efnahagsástandinu og sömuleiðis að með því er verið að sigla inn á lyngari sjó en við höfum verið að velkjast um í síðustu þrjú árin eða svo.

Kannski er það ástæðan fyrir því hvað stjórnaandstaðan hefur verið bitlaus í umræðunum í dag. Kannski fer það í taugarnar á henni hvað vel hefur gengið og að gagnrýni þeirra á undanförnum árum hefur að stórum hluta verið marklaus.

Það má þó ekki verða til þess að stjórnarandstaðan lognist alveg út af og því rétt að hvetja hana til dáða í þessum efnum og hún sjái til þess að við stjórnarliðar höldum vöku okkar. Í það minnsta að þetta verði ekki svona flatt og leiðinlegt eins og í dag.

Nóg er nú samt.