Vel þess virði - eða hvað?

Sjálfstæðismenn hyggjast leggja fram tillögu á þingi um að undirbúa málsókn á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna sem þeir settu á okkur haustið 2008. Þetta var reyndar skoðað á sínum tíma af hálfu hrunastjórnarinnar sem fékk eina virtustu lögfræðistofu Bretlands til að leggja mat á stöðuna. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi eins og segir í svari þeirr: „Lögmennirnir töldu að litlar sem engar líkur væru á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum. Þá voru þeir þeirrar skoðunar að engar líkur væru á því að íslenska ríkið myndi fá dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar.“

Semsagt, lítil sem engin von í að fá málið dæmt okkur í hag og engin von um skaðabætur. En það getur svo sem ýmislegt gerst eins og dæmin sanna.

Það sem myndi hinsvegar gerast við undirbúning svona máls er að við þyrftum að skoða rækilega samskipti stjórnvalda og embættismanna við Breta sem hugsanlega hafi kallað á svo harkaleg og óréttlát viðbrögð þeirra gegn Íslandi. Við þyrftum að fara rækilega ofan í kjölinn á öllum samskiptum fyrrverandi forsætis- fjármála- viðskipta- og utanríkisráðherra landsins við bresk stjórnvöld. Nauðsynlegt yrði að fara sérstaklega vel ofan í saumanna á samskiptum fyrrverandi Seðlabankastjóra við breska embættismenn og hvernig samskiptum hans við innlenda bankamenn var háttað í aðdraganda og kjölfar hrunsins.

Væri það ekki bara vel þess virði?

Allt annað yrði svo bónus.