Vond byrjun á vinnuvikunni

Ég komst því miður ekki á fundinn þann sem Samtök atvinnulífsins boðuðu til í gærmorgun um atvinnumál eins og ég hafði annars ætlað mér. Eftir á að hyggja og ef marka má fréttir af fundinum er ég ekkert endilega viss um að það hafi verið gott fyrir sálarlífið að byrja vinnuvikuna á slíkum fundi.

Grímur Sæmundsson varaformaður Samtaka atvinnulífsins fullyrti í ræðu sinni á fundinum að ríkisstjórnin og stjórnvöld reyndu hvað þau gætu til að halda fólki atvinnulausu og á atvinnuleysisbótum. Hann sagði einnig að ríkisvaldið reyndi að gera atvinnulausum lífið léttbærara á ýmsan hátt með því að auka réttindi atvinnulausra. Grímur varaformaður var fullur hneykslunar og ekki hægt að skilja orð hans öðruvísi en að réttara væri að gera atvinnulausum lífið eins erfitt fyrir og mögulegt er – ofan í atvinnuleysið. Er það lausnin á vandanum að auka á vanda atvinnulausra að mati varaformanns Samtaka atvinnulífsins? Er of mikil frekja að ætlast til þess að talsmenn Samtaka atvinnulífsins tali af meiri virðingu um þá sem um sárt eiga að binda vegna atvinnumissis en varaformaður samtakana gerir?

Hannes Sigurðsson aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins talaði um háskattalandið Íslands í sinni ræðu á fundinum. Þó er það þannig að skattar á Íslandi, sem áður voru þeir lægstu sem þekktust á byggðu bóli, hafa aðeins verið færðir til samræmis við það sem annarsstaðar gerðist. Skattkerfið var meira og minna lagað að þeim efnameiri á undanförnum áratugum, útflatt og svo til ófært um að afla tekna til að reka það samfélag sem við flest viljum búa í. Aðstoðarframkvæmdarstjóri SA vill hinsvegar bæði draga úr sköttum og útgjöldum. Það þýðir einfaldlega meiri niðurskurð í útgjöldum til heilbrigðis,- mennta,- og velferðarkerfisins, svo dæmi séu tekin. Tillögur aðstoðarframkvæmdarstjóra SA miða að aukinni einkavæðingu og samdrætti í samfélagslegri þjónustu. Viljum við það? Sú ríkisstjórn sem nú situr mun ekki uppfylla óskir Samtaka atvinnulífsins hvað þetta varðar.

Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ sagði íslenska útvegsmenn geta skapað hundruð nýrra starfa tengdum sjávarútvegi ef þeir aðeins fengu það sem þeir vildu. Nú er það þannig að sjávarútvegurinn hefur sjaldan gengið betur en einmitt núna. Tekjur sjávarútvegsins hafa aldrei verið meiri, hagnaðurinn mikill, aflheimildir að aukast og útlitið afar gott til framtíðar. Samt segir Adolf að útvegsmenn muni ekki taka þátt í að draga úr atvinnuleysinu sem hann segir þá vera í færi á að gera, nema þeir fái kröfum sínum gegn stjórnvöldum fullnægt. Samkvæmt þessu þá hafa LÍÚ-menn tekið mörg hundruð atvinnulausa íslendinga í gíslingu, neitað þeim um ný störf þar til stjórnvöld hafa gengið að kröfum þeirra. Ég þekki Adolf Guðmundsson. Hann er ágætis karl. Þessu hefði ég aldrei trúað upp á hann og er helst á þeirri skoðun að hann hafi látið glepjast af stemningunni á grátfundi SA þennan mánudagsmorgun í Reykjavík og misst út úr eitthvað sem hann sér eftir í dag. Aldrei hef ég vitað til þess að hann hafi reynt að koma í veg fyrir að fólk fái vinnu.

Það var einna helst að heyra mætti jákvæðan tón í ræðu Margrét Kristmansdóttur formanns Samtaka verslunar og þjónustu sem hvatti félaga sína til að forðast að koma frameins og grátkór, sem málar þá mynd að hér sé allt að fara til helvítis enda sýni afkomutölur í mörgum atvinnugreinum atvinnulífsins aðra sögu.  Ef glærur Margrétar Kritsmannsdóttur frá fundinum eru skoðaðar (sjá glæru nr. 3) leikur hinsvegar engin vafi á því á hvaða leið Samtök atvinnulífsins eru.

Vilmundur Jósefsson formaður SA sagði það sjálfgefið að Samtök atvinnulífsins muni ekki hafa frumkvæði af samskiptum við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Erum við þarna kannski komin að kjarna málsins hjá forskólfum SA? Snýst þetta þá á endanum um að koma ríkisstjórninni frá? Var mánudagsfundur SA þá eftir allt saman aðeins herkvaðning gegn stjórnvöldum í þeim tilgangi að fella ríkisstjórnina? Munu Samtök atvinnulífsins ekki linna látum fyrr en ríkisstjórnin er farin frá og sjálfstæðisflokkurinn aftur komin í stjórnarráðið? Gleymum því ekki að innan Samtaka atvinnulífsins er að finna tryggast bakland Flokksins, bæði fjárhagslegt og andlegt.

Fundur Samtaka atvinnulífsins á mánudagsmorguninn var því ekkert annað en hallærisleg samkoma úrillra atvinnurekenda, útkall, herkvaðning og heróp þeirra gegn stjórnvöldum.

Það er vond byrjun á vinnuvikunni.