Tilgangurinn látin helga meðalið

Haustið 2009 var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagðar voru fram ýmsar breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að lögum um húsnæðismál verði breytt þannig að Íbúðalánsjóði verði heimilt að veita sveitarfélögum lán til bygginga hjúkrunarheimila sem nemur 100% af byggingarkostnaði eða kaupverði hjúkrunarheimilis (sjá gr.21).

Málinu var vísað til umfjöllunar í félags- og tryggingarmálanefnd þingsins til frekari umfjöllunar. Það kom málið síðan aftur til þingsins og var á endanum get að lögum með nokkrum breytingum.

Það er athyglisvert að fulltrúar sjálfstæðisflokksins höfðu þá engar athugasemdir við þann hluta frumvarpsins sem snýr að fjármögnun hjúkrunarrýma sem þeir segja í dag að sé stjórnarskrárbrot! Þó kemur það skýrt fram í skýringum með frumvarpinu að tilgangur þess sé m.a. sá að fjármagna byggingu hjúkrunarrýma með lánum frá Íbúðalánsjóði eins og sjá má á bls. 5 í frumvarpi og sömuleiðis bls. 5 í lögunum sem á endanum voru samþykkt. Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni eins og svo oft áður þegar um félagsleg mál er að ræða. En ástæðan var ekki bygging hjúkrunarheimila.

Það er því hulin ráðgáta hvað það er sem veldur því að nú hafa sjálfstæðismenn snúist gegn byggingu hjúkrunarheimila á grunni laganna.

Kannski bara gamaldags pólitík þar sem tilgangurinn er látin helga meðalið?