Hvar voruð þið öll?

Í síðustu viku skilaði fjárlagnefnd Alþingis frá sér ítarlegu áliti á skýrslu Ríkisendurskoðunar um ársreikning ársins 2009 og eftirliti og meðferð opinbera fjármuna á undanförnum árum og áratugum. Fjárlaganefnd er sammála í niðurstöðu sinni um að meðferð sameiginlegra sjóða landsmanna hefur verið ámælisverð árum saman, líkt og Ríkisendurskoðun hefur réttilega bent á á mörgum undanförnum árum. Þetta er í fyrsta sinn sem fjárlaganefnd afgreiðir skýrslur Ríkisendurskoðunar með þessum hætti en hingað til hafa þær endað lítt skoðaðar upp í hillum. Fjárlaganefnd hefur sömuleiðis tekið upp það áður óþekkta vinnulag að afgreiða með formlegum hætti allar skýrslur Ríkisendurskoðunar til þingsins til áframhaldandi meðferðar. Þetta hefðu fjárlaganefndir síðustu ára og áratuga auðvitað átt að gera og sinna þannig lögbundnu hlutverki sínu en það þýðir ekki að fást um það í dag. Skýrslur Ríkisendurskoðunar um einstök málefni haft því öðlast nýtt gildi og áhrifa hinna nýju vinnubragða fjárlaganefndar eru þegar farið að gæta eins og dæmin sanna. Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi úr skýrsum Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga síðustu ára sem engin viðbrgöð fengu frá þáverandi stjórnvöldum, vþí miður, í ljósi þess sem síðar átti eftir að gerast.

Í áliti Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga ársins 2006 segir m.a. um þau mál (bls. 5): „Eins og mörg undanfarin ár fóru útgjöld A-hluta ríkisins á árinu 2006 verulega fram úr fjárlögum. - Fjárlög mæltu fyrir um 315,1 ma.kr. útgjöld á árinu en endanleg fjárheimild hækkaði um nálægt 12% og var 352 m.kr. – Þessi aukning þýðir að veittar voru heimildir til að stofna til 14,1% hærri útgjalda á árinu 2006 en árið þar á undan. - Í lok árs 2006 stóðu 75 fjárlagaliðir í halla umfram 4% vikmörk reglugerðar um framkvæmd fjárlaga.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna framkvæmdar fjárlaga ársins 2007 má sjá umsagnir á við þess (bls. 5 og 6): Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana. - Af þeim þrettán stofnunum sem sérstaklega var fjallað um í skýrslu um framkvæmd fjárlaga 2006 voru tólf enn með halla umfram 4% viðmiðið í árslok 2007. Ljóst er því að ekki hefur verið tekið á rekstrarvanda þeirra. . Þetta er algjörlega ólíðandi.“

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning ársins 2008 segir m.a. þetta (bls. 5): „Seðlabanki Íslands varð fyrir verulegu tjóni á árinu 2008 vegna ótryggra veðlána hans til fjármálafyrirtækja. Í árslok námu kröfur bankans vegna slíkra lána alls 345,0 ma.kr. Tap bankans nam 75,0 ma.kr. en ríkissjóður yfirtók 270,0 ma.kr. Fyrir liggur að hinir föllnu bankar öfluðu sér lausafjár m.a. með því að taka lán hjá minni fjármálafyrirtækjum sem aftur fengu lán hjá Seðlabankanum gegn ótryggðum bréfum. Settar voru skorður við þessari leið bankanna til lausafjáröflunar í ágúst þegar Seðlabankinn herti kröfur sínar um veðtryggingar. Að mati Ríkisendurskoðunar má spyrja hvers vegna hann brást ekki fyrr við þessum „leik‘‘ bankanna og herti kröfur um veð gegn lánum til minni fjármálafyrirtækja. Að mati Ríkisendurskoðunar hefði þetta getað dregið úr því tjóni sem ríkissjóður og Seðlabankinn urðu fyrir við fall bankanna.“ Sjálfu Morgunblaðinu blöskraði orðið óráðssían eins og sjá má í umfjöllun blaðsins um framkvæmd fjárlaga 2007 og áætlana ársins 2008.

Nú er tímarnir breyttir. Fjárlaganefnd tekur hlutverk sitt alvarlega, afgreiðir þau mál sem til hennar berast með skýrum hætti og hefur tekið upp aga í stað agaleysis á meðferð sameiginlegra sjóða landsmanna. Þótt fyrr hefði verið.

Það má hinsvegar spyrja sig þess hvort Ríkisendurskoðun hafi staðið sig nægilega vel í því að fylgja athugasemdum sínum eftir við áhugalausar fjárlanefndir fyrri tíma og hvort stofnunin hefði mátt gera betur hvað það varðar. Það er líka áhugaverð spurning hversvegna fjölmiðlar sem fengu slíkt efni til að moða úr sem skýrslur Ríkisendurskoðunar voru á þeim tíma, létu þær framhjá sér fara.

Eitt er víst að það stjórnvöld þeirra tíma sem hér um ræðir stóðu sig ekki og því fór sem fór. Stór hluti þeirra sem þar voru á ferð eru enn á þingi og þykjast nú geta kennt öðrum öguð vinnubrögð og góða siði.

Hvar voruð þið öll þegar á þurfti að halda?