Stóra ræfilsmálið og fleiri þingmál

Sárasaklaus ummæli mín um forsetaræfilinn vöktu athygli langt umfram það sem verðskuldað má telja. Mér hafa borist allmargir tölvupóstar frá fólki víðsvegar af landinu vegna þessa. Sumir eru frekar óánægðir með ummælin á meðan öðrum finnst heldur mikið úr þeim gert eftir að hafa hlustað á þau. Það hefur vakið athygli mína í því sambandi að landsbyggðarfólk, sérstaklega að norðan, undrast það skamma fjaðrafok sem málið fékk enda þekkt tungutak norðanmanna. Mér er hinsvegar ljúft að viðurkenna að orðið "forsetaræfill" átti ég ekki að nota úr ræðustól þingsins. Þetta hrökk út úr mér, meiningarlaust sem slíkt og ekki ætlað til að niðurlægja neinn eða meiða. Þetta er hluti af tungutaki sem ég held að okkur sé flestum tamt að nota um eitt og annað án mikillar merkingar. Nefni sem dæmi,"strákræfillinn", "ræfilstuskan", "ræfilsgrey", "karlgreyið", "flottræfilsháttur" eða annað í þá áttina sem ég er viss um að flestir kannist við. Það er vissulega önnur merking í því að segja "aumingja Jón" eða "Jón aumingi" eins og allir vita og þegar hlustað er á það sem ég sagði þá held ég að flestir átti sig á þessu en með góðum vilja megi auðvitað færa þetta til verri vegar. Til gamans voru rifjaðar upp fyrir mér tvær færslur, þessi og þessi, sem ég skrifaði sjálfur og um sjálfan mig og lýsir kannski betur hvernig mér (og flestum öðrum) er tamt að nota slík orðatiltæki. Stóra ræfilsmálið varð síðan einhverjum tilefni til að hnoða saman vísu, m.a. þessari hér.

Þykir lævís þessi karl.

Þjóðar gæfu metur.

Er hann hæfur, er hann snjall

eða ræfilstetur?

Annars var engin sérstök reisn yfir þingstörfum í september. Stjórnarandstaðan hefur innleitt nýtt vinnulag til að stöðva framgang mála á þinginu, sk. sýndarandsvör sem ekki hafa áður tíðkast í þingstörfum. Þingmenn hafa rétt á að gera stuttar athugasemdir við ræður annarra þingmanna og spyrja þá frekar út í afstöðu þeirra til ýmissa mála. Sýndarandsvör felast hinsvegar í því að þingmaður bregst við ræðum samþingmanns og skoðanabræðra sinna með það eitt í huga að tefja þingstörf og lengja umræður. Mörður Árnason hefur fjallað talsvert um sýndarandsvör á síðu sinni þar sem sjá má frekari útskýringar á fyrirbærinu ásamt umfjöllun hans um sýndarandsvarakeppnina sem fram fór í september.  Af öðrum málum sem þingið afgreiddi í september má nefna að gjaldeyrishöftin sem sett voru á haustið 2008 voru framlengt til síðari hluta 2013, ný lög voru samþykkt um stjórnarráð Íslands (mun fjalla um þau síðar), Árósarsamningurinn fullgiltur en hann snýr að aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Ný lög um Þjóðminjasafn Íslands og Landsbókasafn – Háskólasafn auk nýrra safnalaga voru samþykkt og Íbúðalánasjóði var veitt heimild til að bjóða upp á óverðtryggð lán, svo fátt eitt sé nefnt. Alþingi samþykkti sömuleiðis ný sveitarstjórnarlög sem snúa að verulegu leiti að nýjum og betri fjármálareglum sveitarfélaga en áður hafa þekkst og innihalda að auki miklar lýðræðisbætur fyrir íbúa sveitarfélaga. Samgöngunefnd þingsins hafði málið til umfjöllunar um nokkurra mánaða skeið og var einhuga í niðurstöðu sinni. Þverpólitísk og afgerandi samstaða var síðan á endanum um málið á Alþingi sem er afar mikilvægt fyrir framgang þess og mun auðvelda sveitarfélögum framhaldið. Það vakti hinsvegar athygli að Innanríkisráðherra og nokkrir honum tryggir greiddu atkvæði gegn þeirri grein frumvarpsins sem helst snýr að rétti íbúa til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál.

En þingið stóð í lappirnar og réð sínum málum með lýðræðislegum hætti eins og vera ber.