Ótrúlegur málflutningur Þórs Saari

Þór Saari skrifar ótrúlegan pistil á vef Eyjunnar um nýsamþykkt sveitarstjórnarlög í dag. Þar heldur hann því fram að sú lagasetning sé beinlínis ónýt, hafi verið eyðilögð í meðförðum samgöngunefndar enda sitji þar válegur hópur fólks sem sé á móti lýðræðinu. Hann segir málið vera hroðvirknislega unnið á of skömmum tíma og séu þau vinnubrögð til vitnis um að Alþingi sé ónýtt í heild sinni. Þór segir ný lög viðhalda fámennis- og klíkustjórnmálum sem hafa viðgengist á sveitarstjórnarstiginu en um leið opinberar hann þann draum sinn að KR-ingar og kylfingar geti átt rödd í sveitarstjórnum, væntanlega þá til að viðhalda hagsmunagæslu og klíkuskap – eða hvað? Þór Saari lætur ekki þar við sitja heldur fer hann með fullkomin ósannindi um þær breytingar sem gerðar voru á 108.gr. frumvarpsins sem fjallar um íbúakosningar og um aðdraganda þeirra. Þær tillögur eru nánast þær sömu og sjá má í sambærilegri tillögu stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá sem Þór Saari hlýtur þá einnig að vera algjörlega ósammála og telja fullkomlega ónýta og verri en engin.

Þór Saari fjallaði um málið í sama anda í ræðu á Alþingi á dögunum og fékk þessi viðbrögð við henni.

Staðreyndir málsins eru hinsvegar allt aðrar. Samgöngunefnd hafði málið til umfjöllunar um nokkurra mánaða skeið og ráðfærði sig við fjölda aðila við meðferð þess og varð að lokum einhuga um málið. Nefndin fékk fjölda allan af umsögnum um málið og tók á móti öllum þeim gestum sem óskuðu eftir að hitta nefndina vegna þess. Að lokum færði samgöngunefnd einum rómi fram sannfærandi rök fyrir þeim breytingum á málinu sem Alþingi samþykkti á frumvarpinu með yfirgæfandi meirihluta. Niðurstaðan varð að lokum sú að ný sveitarstjórnarlög eru mikið framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þess. Þau fela í sér aukna aðkomu íbú að ákvörðunum sveitarfélaga, setja sveitarfélögum nýjar og skýrar fjármálareglur og koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga í annan og betri farveg en áður.  Það hefur hinsvegar vakið athygli að Hreyfingin sem er með áheyrnafulltrúa í nefndinni, sá ekki ástæðu til að leggja neitt af mörkum í þá vinnu. Fulltrú Hreyfingarinnar mætti sem samgt aldrei til funda um málið í samgöngunefnd og er því tæpast til frásagnar af því sem þar fór fram.

Sá fulltrúi heitir Þór Saari.