Stóra lygin!

Tryggvi Þór Herbertsson notaði Rannsóknarskýrslu Alþingis til að styðja við málflutning sinn og sjálfstæðisflokksins í umræðum um ný stjórnarráðslög í ræðu á Alþingi í kvöld. Það fannst mér skrýtið því varla er hægt að skrumskæla þá miklu skýrslu um hrunið meira en með því að ábyrgðarmenn hrunsins nýti sér hana með slíkum hætti. Rannsóknarskýrslan er skrifuð af ærnu tilefni og á rætur sínar að rekja til mesta siðferðilega, efnahagslega og hugmyndafræðilega hruns sem átt hefur sér stað hér á landi. Rannsóknarskýrsla Alþingis er í raun ítarleg skýrsla um sögu sjálfstæðisflokksins í níu bindum, sögu spillingar og pólitísks gjálífis sem á sér ekki nokkra hliðstæðu í sögu þjóðarinnar. Þetta benti ég þingmanninum kurteislega á. Hann brást hinsvegar við með því að fullyrða að það sé ekkert annað en ein stór lygi að halda því fram að hér hafi orðið eitthvað siðferðilegt eða hugmyndafræðilegt hrun og fólk sé sem betur fer farið að átta sig á því. Þetta sé hin stóra lygi sem haldið hafi verið að fólki af vinstrimönnum.

Er hægt að ganga fjarri raunveruleikanum en þetta og það aðeins tæpum þrem árum eftir hrunið mikla??

Var þetta þá bara allt eins stór lygi eins og Tryggvi Þór Herbertsson heldur fram??

Bendir fylgi sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum til þess að fólk sé farið að átta sig á stóru lyginni??