Umræðan um nýja stjórnarskrá

Eiríkur Bergmann skrifar pistil um viðbrögð við tillögum stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár á DV bloggið sitt. Þar segir hann m.a. eftirfarandi:

„Við (væntanlega stjórnlagaráðið) vissum það strax í upphafi að valdastéttin og menntaelítan myndi tala starf okkar í stjórnlagaráði niður. Fyrir lá að þeir sem telja sig réttborna handhafa valdsins og þeir sem þykjast sérstaklega til þess bærir að túlka óskýra lýðveldisstjórnarskránna er ekkert gefið um að fulltrúar fólksins í stjórnlagaráði vasist í því að skrifa stjórnarskrá á mannamáli.“

Samkvæmt þessu virðist það hafa verið rætt í stjórnlagaráðinu og út frá því gengið að það sem kallað er „valdastétti og menntaelíta“ myndi rægja starf ráðsins og tortryggja á alla kanta. Samkvæmt skrifum Eiríks Bergmanns hafa fulltrúar stjórnlagaráðsins gengið út frá því að „þeir sem telja sig réttborna handhafa valdsins“ myndu ekki láta það kjurt liggja að ný stjórnarskrá yrði skrifuð á mannamáli og þegar hafi "nokkrar fyrir sjáanlegar atlögur verið gerðar" að tillögum ráðsins. Tónninn í skrifum Eiríks Bergmanns er þannig að fulltrúar stjórnlagaráðs hafi ákveðið að taka fast á allri gagnrýnni umfjöllun um tillögur þeirra. Sé það rétt, þá boðar það ekki gott upp á framhaldið á þessu mikilvæga máli.

Ég kýs hinsvegar að líta svo á að Eiríkur hafi hlaupið á sig í skrifum sínum að þessu sinni og við öll, þjóðin öll, getum óhrædd tekið þátt í umræðum um mótun nýrrar stjórnarskrár án þess að eiga það á hættu að fá svona gusur yfir okkur.

Var ekki leikurinn annars til þess ætlaður?