Þú stendur allavegana vaktina fyrir okkur, Pétur

Pétur Blöndal var í morgunþætti Bylgjunnar og ræddi þar m.a. um Icesave. Ég hef gaman af Pétri þó ekki sé ég oft sammála honum. Hann hefur það fram yfir marga að hugsa út fyrir hina hefðbundnu ramma og vera óhræddur við að leita lausna. Hann ræddi aðallega um þrennt í morgun.
Fyrst um Icesave
Þarf sagði hann þjóðina geta prísað sig sæla fyrir að hafa ekki staðfest lög um málið fyrr á árinu. Ef það hefði nú verið gert þyrftum við að greiða háar upphæðir og væri reyndar komið að því einmitt núna þessa dagana. Sjálfur sagðist hann ekki hafa fengið fréttir af neinum millifærslum frá Íslandi vegna málsins og því síður höfðu þáttastjórnendur Bylgjunnar fengið slíkið fréttir. Pétur reiknaði síðan vexti fram og til baka og gaf í skyn að hvorki höfuðstóll Icesave-ósómans sem komið var á í skjóli hans og fleiri á sínum tíma, né vextir yrðu greiddir vegna þess að lög um lausn málsins voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þú stendur allavega vaktina fyrir okkur,“ sagði annar stjórnanda þáttarins alvöruþrunginn. Pétur hélt nú það. Rétt eins og hann gerði á þeim árum sem hann ásamt félögum sínum á þingi stóð vaktina við að einkavinavæða bankanna og kom á regluverki hér á landi m.a. með þeim afleiðingum sem sjá má í Icesave-málinu. Niðurstaða málsins er einföld: Icesave-skuldin verður greidd að fullu eins og Pétur veit rétt eins og allir aðrir. Það hefur aldrei annað staðið til. Breytir þar engu um hvort Pétur verður áfram á vaktinni eða kominn í koju.
Síðan um fjármál heimsins
Pétur hefur eins og allir aðrir miklar áhyggjur af ástandinu á fjármálamörkuðum heimsins. Sérstaklega þó í Bandaríkjunum sem Pétur sagði að þyrftu að hækka skatta og skera niður í útgjöldum ríkisins. Ég beið spenntur. Nú fengi karlinn að heyra það hjá stjórnendum þáttarins. Þetta er einmitt það sem þurft hefur að gera hér á landi. Pétur hefur hinsvegar eins og flokksmenn hans lagst alfarið gegn tekjuöflun og hótað því að draga allar skattahækkanir til baka ef þeir komast aftur til valda. Á vaktina, meina ég. En viti menn. Hann slapp frá þessu og var ekki spurður frekar út í málið. Er það virkilegt að Pétur ráðleggji öðrum þjóðum að grípa til aðgerða í efnahagsmálum sem hann sjálfur leggst gegn hér heima? Hversvegna?
Að lokum um bensínverðið
Þáttastjórnanda þótti það furðulegt að í nýrri skýrslu um hækkandi olíuverð væri komist að þeirri niðurstöðu að olíuverð myndi jafnvel hækka í framtíðinni. Já, Pétri fannst þetta líka skrýtið. Sérstaklega þó að skipa „svona“ starfshóp um málið en ekki einhvern veginn öðruvísi. Pétur sagði sjálfstæðisflokkinn vilja lækka alla skatta á bensín – tímabundið í sex mánuði – til að hlífa ferðaþjónustunni. En af hverju tímabundið, Pétur? Og hvað svo, Pétur? Hvað á svo að gerast eftir sex mánuðina, Pétur? Við því fékkst ekkert svar enda ekki eftir því leitað í þættinum.
Svarið er einfalt: Olíuverð mun áfram verða hátt á heimsmarkaði og líklega halda áfram að hækka. Því fáum við ekki breytt.
Jafnvel þó Pétur Blöndal standi vaktina.