Alþingi ræður för

Ég átta mig ekki alveg á umræðunni um stöðu ESB-viðræðanna. Því er haldið fram að þær séu í einhverskonar uppnámi vegna afstöðu einstakra ráðherra til einstakra mála. Þannig er það ekki. Viðræðurnar byggjast á samþykkt Alþingis sumarið 2009 um að fara í aðildarviðræður. Á þeim grunni munu viðræðurnar fara fram nema Alþingi ákveði annað. Þangað til mun álit einstakra þingmanna eða ráðherra engu breyta um framgang málsins. Svo einfalt er nú það.
Til að forðast misskilning er ég enn þeirrar skoðunar að Íslandi sé betur borgið utan ESB. En ég er líka þeirrar skoðunnar að þjóðin eigi að leiða málið til lykta og ráða örlögum sínum í atkvæðagreiðslu um samning þegar og ef að því kemur. Það er hinsvegar farið að pirra mig hvað við erum að eyða miklum tíma til einskis í umræðu af þessu tagi.
Nóg eru nú verkin og tíminn af skornum skammti.