Það þurfti konu að vestan ...

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sitt fjárhagslega bakland í sjávarútveginum. Það kom glöggt fram í atkvæðagreiðslum um „litla“ sjávarútvegs frumvarpið á Alþingi á laugardaginn að sjálfstæðismenn eru sínum trúir. Þeir vörðu óbreytt kerfi, lögðust gegn öllum lagfæringum og ítrekuðu hótanir sínar um að standa berjast af hörku gegn öllum breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Um það vitna ummæli formannsins í kjölfar afgreiðslu þingsins og áður hafði varaformaður flokksins gefið út línu í þeim efnum. Það er skiljanleg af staða af þeirra hálfu. Allar breytingar koma sér illa fyrir sjálfstæðisflokkinn og ógnar fjárhagslegri stöðu flokksins.
Frumvarpið sem Alþingi samþykkti með miklum meirihluta þingmanna á laugardaginn fól í sér stefnubreytingu og markaði leiðina inn í frekari lagasetningar í þá veruna. Nú koma allar tegundir útgerða að því að kosta byggðatengda hluta kerfisins með úthlutuð heimildum óháð tegundum. Fram til þess hefur þessi hluti kerfisins aðeins verið greiddur af þeim sem hafa fengið úthlutað heimildum í þeim fjórum fisktegundum sem úthlutað hefur verið til byggðatenginga. Hér er um mikið réttlætismál að ræða sem lengi hefur verið beðið eftir að leiðrétta en ekki verið vilji til þess fyrr en núna. Alþingi ákvað sömuleiðis að takmarka mjög heimildir til að breyta úr einni fisktegund í aðra sem hefur verið mjög gagnrýnt á undanförnum árum. Alþingi ákvað sömuleiðis að hækka veiðgjald um 50% frá og með næsta fiskveiðiári sem er gríðarlega stór aðgerð og mér er til efs að nokkur ein aðgerð muni koma til með að skila ríkissjóði jafn miklum tekjum og þessi. Alþingi ákvað sömuleiðis að taka undir þá skoðun sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fela ráðherra að gera úttekt á raunverulegum áhrifum á byggða- og félagslegum úthlutunum aflaheimilda. Það mun skipta gríðarlegu máli upp á framhaldið að hafa slíka úttekt í höndunum enda vandasamt að leggja mat á frekari aðgerðir í þá veruna nema að vita fyrir víst hvort þær aðgerðir eru að skila því sem þeim er ætlað fyrir viðkomandi byggðar, samfélagið í heild sinni og síðast en ekki síst fyrir skynsamlega nýtingu fiskistofna.
Af þessu sést að það sem kallað hefur verið „litla frumvarpið“ er þegar upp er staðið alls ekki svo lítið heldur fól það í sér afgerandi stefnubreytingu í viðamiklum málum auk sanngjarnra leiðréttinga á auðsjánalegu óréttlæti og varðar því leiðina inn í framtíðina.
Það er líka athyglisvert að það er ekki fyrr en nú sem breytingar í þessa áttina ná fram að ganga. Í sjálfstæðisflokknum hefur ekki verið og er enginn vilji til slíks. Seinni tíma saga framsóknarflokksins er svo samofin kvótakerfinu að jafnast nánast á við að slíta pólitíska hjartað úr flokknum að breyta því. Samfylkingin hafi ekki erindi sem erfiði í samstarfi við sjálfstæðisflokkinn á þessum vettvangi. Það var því ekki fyrr en Vinstri græn komust til valda sem hreyfing kom á málin. En það þurfti meira til.
Það þurfti konu að vestan til að berja þær breytingar í gegnum þingið.