Móðursýki vegna Geirs H Haarde

Svo kallað stuðningsfólk Geirs H Haarde heldur fundi og safnar peningum honum til stuðning vegna málaferla sem hann á í. Reynt er að byggja um samúð gagnvart hinum ákærða á þeim grunni að Geir sé drengur góður sem sæti óréttlátum og fyrst og fremst pólitískum réttarhöldum og vonlítið sé að hann fái réttláta meðferð fyrir Landsdómi.
Hvað er fólk að fara? Hefur engum dottið í hug að Geir geti verið sekur um það sem hann er ákærður fyrir? Er Rannsóknarskýrslan gleymd? Var það ekki ein af niðurstöðum hennar að Geir hafi sýnt vanrækslu í starfi og látið hjá líða að grípa til ráðstafana með skelfilegum afleiðingum? Geir H Haarde var forsætisráðherra í verstu ríkisstjórn lýðveldissögunnar. Það var hann sem leiddi þjóðina inn í hrunið, tók þátt í að leyna þjóðinni nauðsynlegum upplýsingum í aðdragandi hrunsins en reyndi þess í stað að blekkja hana fram á síðustu stundu. Sem formaður sjálfstæðisflokksins bar hann ábyrgð á efnahagsstefnu flokksins sem að lokum leiddi til þeirra efnahagslegu hörmunga sem þjóðin glímir nú við með tilheyrandi atvinnuleysi og skuldasöfnun heimila og fyrirtækja.
Hvað átti fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir við með ræðuhöldum sínum á samkomu til stuðnings Geirs í gær þegar hún sagði Geir eiga sanngirni skilda? Eiga ekki allir sanngirni skilda? Er einhver vafi á því hvort Landsdómur muni veita sakborningnum sanngirni byggða á landslögum? Sjálfstæðisflokkurinn skipaði reyndar ekki dómarana líkt og á öðrum dómsstigum, það er rétt. Er það sem fólk óttast – að Flokkurinn hafi ekki tök á Landsdómi og hans fólk fái því ekki sanngjarna meðferð fyrir honum? Hvaða skilaboð voru fyrrum samráðherrar og stuðningsmenn Geirs að senda út í samfélagið með hátíðarhöldum honum til heiðurs? Eru það skilaboð um að stétt stjórnmálamanna muni alltaf standa þétt saman um ábyrgðarleysi sitt og sakleysi, sama hvað á gengur? Var samfundur þeirra í Hörpunni í gær ábending til Landsdóms um að valdastéttin í landinu láti það ekki þegjandi yfir sig ganga að einn af þeim yrði dæmdur fyrir embættisafglöp, vanrækslu og annað það sem Geir hefur verið sakaður um?
Ég hef ekki hugmynd um hvort Geir H Haarde er sekur eða saklaus. Mér finnst það hinsvegar til fyrirmyndar af okkur íslendingum að láta á það reyna fyrir dómi – loksins – hvort stjórnmálamaður af hans kaliberi geti verið ábyrgur gerða sinna í svo alvarlegu máli sem um ræðir.
Geir H Haarde er ekki fórnarlamb í þessu máli. Hann var gerandi.
Þjóðin er fórnarlambið. Hún ber tjónið á öxlum sér hvern einasta dag.