Af hverju ekki opna fundi um bankaskýrsluna?

Umræðan um bankaskýrsluna frægu sem stjórnarandstaðan svaf af sér þegar hún var lögð fram á Alþingi hefur náð nýjum lægðum í morgunblaðinu í dag. Sú umfjöllun stenst ekki lágmarkskröfur um rökræður og því lítið meira um það að segja.
En nú fer vonandi að birta yfir málinu þar sem birtu er á annað borð von. Þrjár nefndir þingsins munu ræða málið í næstu viku auk þess sem málið verður á dagskrá þingsins eftir því sem mér skilst.
Nú segir í þingsköpum að halda megi sérstaka opna fundi sem sjónvarpað er frá og um þá fundi hefur þingið sétt sérstakar reglur. Til viðbótar þessu er í lögum um þingsköp Alþingis heimild til að útvarpa „umræðum um þingmál, eða hluta hennar, ef þingflokkur krefst þess og samkomulag er um það milli þingflokka eða forseti hefur ákveðið slíka umræðu eftir kröfu þingflokksins.“
Það eru því ýmis færi á því að taka þessa umræðu fyrir opnum tjöldum, bæði í gegnum beinar sjónvarpsútsendingar og/eða með því að útvarpa umræðunum. Best væri auðvitað að sjónvarpa bæði og útvarpa frá þeim nefndarfundum sem væntanlegir eru um málið í næstu viku ef ætlunin er á annað borð að varpa ljósi á staðreyndir málsins.
Þá stendur bara eftir spurning um stjórnandstöðuna og hvort hún hefur kjark til að bera sig í málinu?