Á röngunni

Stundum líður manni eins og veröldin sé á röngunni og það hafi farið framhjá manni að það hafi gerst og þá ekki síður hvernig það gerðist. Það var einn slíkur dagur í dag. Í morgun hlustaði ég á viðtal við tvo stjórnarandstæðinga á Bylgjunni, þau Lilju Mósesdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson. Lilja hafði tíðindi að færa landsmönnum. Þau fólust í því að hrun íslenska efnahagskerfisins hefði haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskan almenning, heimili og fjölskyldur. Þetta hafði hún lesið í skýrslu sem hefði farið leynt með og átt að forða undan frekari umræðu. Stóru tíðindin voru samt þau að það var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J Sigfússonar að kenna, sagði Lilja. Hún sagði að í nefndri skýrslu kæmi fram að þau skötuhjúin hefðu lagt á ráðin um að hygla útlenskum kröfuhöfum í bankarústirnar á kostnað íslenskra skattborgara. Þetta þótti þáttastjórnendunum mikil tíðindi og þau hvorki gátu né reyndu að dylja óánægju sína vegna málsin. Guðlaugur Þór sagði ábúðafullur frá því að þúsundir íslendinga hefðu nýtt sér þjónustu hans við að reikna út tapið sem þeir hefðu orðið fyrir vegna bankahrunsins sem þau Jóhanna og Steingrímur hefðu framkallað. Hann var þakklátur kollega sínum í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa komið upp um svikavef formanna stjórnarflokkanna sem opinberaðist í leyniskýrslunni góðu sem Lilja hafði komist yfir og hafði verið laumað bakdyramegin inn í þingið. Enginn vafi.
Síðar um daginn hlýddi ég á varaformann framsóknarflokksins upplýsa þjóðina um það í þingræðu að það væri allt að fara á hliðina í efnahagslífi þjóðarinnar. Hann dró sér til vitnis sjálfan formann framsóknarflokksins og þurfti þá ekki frekar vitnanna við. Enginn vafi.
Þar á eftir kom Lilja Mósesdóttir aftur í útvarpið, nú á RÁS 2 og endurtók rulluna frá því á Bylgjunni fyrr um morguninn án þess að vera spurð út í það frekar. Jóhanna og Steingrímur lögðu á ráðin með því að semja við erlenda kröfuhafa á kostnað íslenskra skattborgara. Það var ekki um að villast. Enginn vafi.
Þá var komið að fréttum Stöðvar 2 og hver var þá mættur þar nema varaformaður framsóknarflokksins með ræðuna frá því á þinginu fyrr um daginn og formann sinn til vitnis. Allt að fara til fjandans, sagði varaformaðurinn ábúðafullur. Enginn vafi.
Er það misminni að endurreisn stóru bankanna hafi kostað íslensku þjóðina mörg hundruð milljarða lægri upphæð en ráð var fyrir gert?
Er það misminni að "leyniskýrsla" þeirra Lilju og Guðlaugs Þórs hafi verið lögð fram á þinginu fyrr í vetur og verið opinbert plagg síðan þá?
Er það misminni hjá mér að skuldirnar sem Guðlaugur Þór er að bjóða fólki að reikna út á heimasíðu sinni hafi umbreyst og margfaldast vegna efnahagshrunsins 2008 sem sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á umfram aðra? Af hverju er almenningi ekki boðið upp á að fylgjast með endurgreiðslum á þessu hér? Er það vegna þess að flokkurinn ákvað sjálfur kjörin og lánstímann? Vaxtalausar afborganir á sjö árum?
Er allt að fara fjandans til að mati varaformanns framsóknar vegna þess að árangur í efnahagsmálum er að skila sér í stórbættum kjörum almennings sem m.a. má sjá í einum viðamestu aðgerðum sem gripið hefur verið til af íslenskum stjórnvöldum í þá veruna?
Af hverju spyr enginn þetta fólk spurninga?
Verður kannski boðið upp á rönguna aftur á morgun?