Eignir Landsbankans vanmetnar

Eins og allir vita snúast samningarnir um Icesave-málið um að skuldin verði greidd með eignum þrotabús Landsbankans. Andstæðingar þess að leysa málið með samningum halda því m.a. fram að mikil óvissa sé um virði eigna búsins og því sé veruleg áhætta fólgin í því að þær standi undir því sem þær eiga að gera. Fátt er fjarri sanni.
Í Fréttablaðinu í dag er afar góð fréttaskýring um málið og mat á eignum þrotabús gamla Landsbanka Íslands. Þar má sjá að í stað þeirrar óvissu sem sögð er vera um virði eignanna liggur nú fyrir að það sem þegar hefur verið heimt úr búinu mun standa undir nær allri Icesave-skuldinni. Þrotabúið á til að mynda um 360 mia kr. inn á bankareikningum víðsvegar um heiminn og aðrir rúmlega 300 mia. kr. fást fyrir eignir sem fóru yfir Nýja Landsbankann við stofnun hans. Enn aðrir 277 mia. kr. eru bundnir í útlánum til viðskiptavina og yfirgnæfandi líkur eru á að heimtist. Upplýsingar sem þessar eru kærkomnar enda hafa andstæðingar samkomulags í Icesave lengi reynt að gera lítið úr eignasafni Landsbankans. Eins og þessar tölur sýna að þá stenst sá málflutningur ekki en áætlanir um heimtur úr búinu hafa aukist jafnt og þétt frá falli Landsbankans. Í ágætum sjónvarpsþætti um málið í kvöld var farið ágætlega yfir þetta mál sem leiddi til sömu niðurstöðu og að framan greinir.
Upphaflega var gert ráð fyrir að eignir dyggðu fyrir um helming Icesave skuldarinnar en í dag bendir varfærið mat til að eignirnar standi nú þegar undir tæpum 90% skuldarinnar. Mat skilanefndarinnar hefur í raun hækkað um að meðaltali 23 milljarða á hverju þriggja mánaða tímabili frá apríl 2009. Enn á eftir að ráðstafa verðmætum eignum úr búinu og því hægt að halda því fram með mikilli vissu að búið muni að lokum standa undir öllum höfuðstólnum. Eignirnar munu því greiða skuldina og hún mun því ekki lenda á herðum annarra en þrotabúinu. Í rauninni þýðir þetta að bankinn sem stofnaði Icesave-reikninga og varð valdur af öllum þessum ósköpum – mun greiða alla skuldina.
Þetta sést einna best á því að allt hlutabréfasafn búsins hefur verið metið á 117 mia. kr. Það liggur þó fyrir að á dögunum var tilboði upp á 200 mia.kr. í Iceland Foods matvörukeðjuna hafnað en þrotabúið á um 70% hlut í henni. Væntanlega er það mat skilanefndarinnar að hluturinn sé enn verðmeiri og því talið rétt að leita fleiri tilboða. Samkvæmt því er eign búsins í Iceland Foods ein og sér meira viðri en allt hlutabréfasafn þrotabúsins er skráð á í dag. Til viðbótar þessu berast fregnir að því að félagið Aurum Holdings sé komið í söluferli hjá skilanefndinni og er verðmiðinn á félagið 36 mia.kr. en ekki varið áður búist við því að fá svo hátt verð fyrir þá eign. Hér eru aðeins nefndar tvær eignir í hlutabréfasafninu sem dæmi um að mat eignasafnsins hefur verið mjög varfærið til þessa og ljóst að mun meira mun fást fyrir þær en reiknað var með. Til viðbótar þessu eru fjölmargar aðrar eignir í búinu sem vitað er að meira fæst fyrir en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sem dæmi um það má nefnda Hamleys og House of Fraser og fjölda annarra.
Rétt er að benda á að fjölmargir koma að því að meta eignir þrotabús Landsbankans, allt frá sérhæfðum aðilum og fyrirtækjum á því sviði til kröfuhafa sem eru að reyna að gera sér grein fyrir mögulegum heimtum upp í tapaðar kröfur sínar og hafa samþykkt fyrirliggjandi eignamat.
Það eru því yfirgnæfandi líkur eru því á að ekki standi ein einasta króna eftir af Icesave-skuldbindingunni árið 2016 þegar áætlað er að útgreiðslu úr búinu ljúki.