Er verið að selja íslensk börn í ánauð til útlanda?

Ég heyrði auglýsingu í útvarpinu í morgun sem gerði mér bylt við. Í henni segir Egill Ólafsson, söngvari, leikari og alt muligt man, frá því að hann muni segja nei við Icesave vegna þess að með því sé verið að selja íslensk börn í ánauð til útlanda líkt og gert var á fimmtándu öld. Auglýsingin hljómar svona:
„Samkvæmt annálaskrifum voru íslensk börn seld í ánauð til námuvinnu á Bretlandseyjum á fimmtándu öld. Það er engin ástæða til að endurtaka áþekka framkomu gagnvart börnum framtíðar. Þess vegna segi ég nei við Icesave. Egill Ólafsson“
Það má hlusta á auglýsinguna og fleiri álika frá Agli á vef nei-fólksins fyrir þá sem vilja.
Þetta er óhugnanlegt og setur að manni hroll að fá þessar upplýsingar um málið. Upplýsingar sem ekki hafa legið fyrir og einhverra hluta vegna hafa ekki komið upp á yfirborðið fyrr en núna með yfirlýsingum Egils.
Ekkert í líkingu við þetta hefur borist inn á borð okkar þingmanna eða fjárlagnefndar sem hvað mest hefur fjallað um málið.
Ég held að það sé óumflýjanlegt fyrir okkur öll að kallað verði eftir þeim gögnum sem styðja þær fullyrðingar Egils Ólafssonar að með því að samþykkja þann samning sem íslenskir samninganefndarmenn undir forystu Lee Buchheit sé ígildi þess að selja íslensk börn í ánauð til útlanda.