Áhrif niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar

Mjög ítarleg greining hefur verið gerð á áhrifum þess að samþykkja lögin um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl næstkomandi.
Í stuttu máli sagt felst í samþykkið í því að samningur íslensku samninganefndarinnar undir forystu Lee Buchheit taks gildi sem þýðir að eignir Landsbankans standa nánast undir allri skuldbindingu Tryggingasjóðs innstæðueiganda og fjárfesta vegna málsins. Forsenda samningana er að eignir bankans standi undir skuldinni en nú þegar eru í hendi eignir sem munu duga fyrir 90% skuldarinnar. Lárus Blöndal fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndinni gerir ágætlega grein fyrir þessu í viðtali við fjölmiðla í morgun og útskýrir málið með mjög einföldum og greinargóðum hætti. Með þessum hættverður málinu lokið í síðasta lagi árið 2016 þegar síðustu greiðslur úr þrotabúinu verða greiddar út. Þessi farvegur málsins er líka eðlilegur þ.e. gengið verður frá málinu með samningum og eignir bankans ganga beint upp í skuldina.
Nei – hlið málsins er öllu óljósari og hafa aðilar þeim megin víglínunnar fengið að komast upp með frekar ódýran og ónákvæman málflutning. Nei-fólkið byggir afstöðu sína á tveim megin forsendum fram í umræðum sem báðar eru rangar. Sú fyrri er að áhættan í Icesave málinu felist eingöngu í samþykki málsin en nei-ið sé áhættulaust. Þetta er fjarri sanni enda felur nei-ið í sér mun meiri áhættu eins og Ragnar H. Hall, Lárus Blöndal og Lee Buchheit hafa ítrekað bent á. Sé dómstólaleiðin farin gæti höfuðstóll skuldarinnar til að mynda orðið 1.320 milljarðar króna í stað tæpra 650 milljarða eins og samningurinn kveður á um. Samningsstaðan Íslands í málinu væri þar með horfin ef niðurstaðan yrði landinu í óhag. Engin lánasamningur væri þá lengur í gildi eða á borðinu heldur bara himinhá skuld sem þyrfti að standa skil á með einhverjum ótilgreindum hætti. Sennilega yrðu þá góð ráð dýr við þær aðstæður – þjóðin sæti eftir með sárt ennið og sjálfsagt sæju margir eftir samningnum góða sem felldur var af þjóðinni. Þetta atriði tengist svo síðari forsendu nei-fólksins sem er sú að við borgum ekki skuldir óráðssíumanna. En það er augljóst að nei-ið þýðir það bara alls ekki. Nei er ávísun á áhættu og í raun er ekkert annað en fífldirfska samanborið við það að með núverandi samningi er að hægt að ljúka málinu með minniháttar tilkostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur. Í þessu samhengi er rétt að muna að með samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslunni er meira en líklegt að enginn kostnaður muni falla á ríkið þar sem endurheimtur búsins hafa stöðugt batnað og hafa farið úr því að vera í upphafi verið metnar til að standa undir 50% höfuðstólsins en ljóst er í dag að muni duga fyrir 89% þeirra. Nei felur því í sér þá áhættu að skuldin muni hækka verulega og því afar erfitt að ímynda sér annað en að fullyrðingar Nei-fólksins um að fella málið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl feli nokkuð annað í sér en frekari kostnaði íslensku þjóðarinnar vegna hrunsins. Samningaleiðin felur aftur á móti í sér tryggingu – tryggingu sem hinn skynsami maður myndi velja sér ef fyrirséð að tjón hans verður meira með öðrum hætti.