Óborganleg ummæli

Sumt er fyndnara en annað og stundum missir fólk frá sér óborganlegar setningar sem í samhengi hlutana á þeim tíma eru ekkert annað en skemmtilegt innlegg í gráan hversdagsleikann. É man eftir ummælum Valgerðar Sverrisdóttur fyrrverandi ráðherra sem varð svarafátt við spurningum um sölu Landsbankans á sínum tíma og hvort allt hafi farið þar sem til var ætlast. Henni var svarafátt en sagði svo „Það má svo sem segja að við höfum verið óheppin með kaupendur.“ Í ljósi þess sem síðar gerðist er eiginlega ekkert annað hægt að gera en skemmta sér yfir þessari skýringu fyrrum ráðherrans á öllum þeim hörmungum sem leiddi síðar af málinu.
Önnur ekki síðri ummæli í þessa veru féllu í dag í viðtali fréttamanns Smugunnar við Atla Gíslason þingmann. Þar er hann að segja frá ástæðum þess að hann sagði skilið við þingflokk Vinstri grænna og viðbrögðum sem hann hefur fengið við útgöngunni og segir m.a. frá skilaboðum frá átta barna móður úr suðurkjördæmi. Að sögn Atla styður hún framgöngu hans og gott betur því „sagðist ala börnin sín upp í þeim anda sem við Lilja Mósesdóttir stæðum fyrir“ er haft eftir Atla. Ekki fylgja nánari skýringar á því hvað felst í þeim uppeldisaðferðum en þær hljóta að hafa einhver sérkenni umfram aðrar þekktar aðferðir við barnauppeldi. En í ljósi aðstæðna eru þessu ummæli bráðskemmtileg, óborganleg og reyndar algjör snilld sem ég veit að hafa kallað fram bæði bros og hlátrasköll úr óvæntustu áttum.
Er tilganginum þá ekki náð?