Heimtur úr búi Landsbankans greiða Icesave að fullu

Fyrir skömmu kynnti skilanefnd Landsbankans nýtt mat á heimtum úr búi bankans. Þar kom fram að til þessa hafa heimtur verið talsvert betri en áætlað var og sömuleiðis að eignir búsins væru meira virði en búist var við. Miðað við það sem nú liggur fyrir, þ.e. það sem þegar hefur fengist greitt og það mat sem lagt hefur verið á þær eignir sem enn eru óseldar eða eru tryggar eignir, er nú allt útlit fyrir að Icesave-skuldbinding Íslands gagnvart Bretum og Hollendingum verði að fullu greidd með eignum bankans og gott betur. Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig þróunin hefur verið hvað þetta varðar en á lóðrétta ássnum er Icesave-málið allt eins og það leggur sig en tímaásinn er sá lárétti, hefst 5. júní 2009 og nær til dagsins í dag. Græni flöturinn er virði eigna Landsbankans, rauði sýnir muninn á eignum og skuldbindingunni eins og hann hefur þróast en blái flöturinn þar fyrir ofan sýnir þann hluta sem fellur óbættur á aðra en einstaklinga sem áttu peninga inni á Icesave-reikningunum. Það eru t.d. þeir sem eru þessa dagana fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með sín máls, sveitarfélög, líknarfélög, ýmiss félagasamtök og aðrir slíkir sem fá tjón sitt ekki í neinu bætt.
Eins og sést á myndinni hefur hægt og bítandi náðst að auka eignir Landsbankans þannig að nú stefnir í að þær dugi fyrir skuldinni allri. Til að byrja var gert ráð fyrir 75% heimtum upp í skuldina en í dag er öruggt að a.m.k. 90% hennar verður greidd með eignum bankans og meira en líklegt að eignir nái að greiða samninginn um lausn Icesave-málsins upp að fullu eins og áður segir.
Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka það fram að það er hvorki ríkisstjórn Íslands né samninganefndin um Icesave-málið sem fer með þetta mál eða leggur mat á eignir Landsbankans, heldur er skilanefnd bankans með málið á sínum höndum og í samstarfi við fjölda aðila, m.a. kröfuhafa er reynt að leggja raunhæft mat á eingirnar.