Eigandastefna ríkisins

Fyrir hrun voru nær allar fjármálastofnanir í einkaeigu sem réðu sinni ferð svo til algjörlega án afskipta ríkisvaldsins. Það átti við launamál þessara stofnanna sem og annað sem að þeim snéri. Því fór sem fór. Ofurlaun stjórnenda bankanna ásamt allskonar rétti til kaupa á bréfum í stofnunum sem enginn leið var fyrir nokkurn mann að tapa ásamt fleiru í þá áttina einkenndi launastefnu þessara fyrirtækja sem venjulegt fólk var löngu hætt að skilja. Þegar síðan herti að voru ýmsar skuldir þessa fólks afskrifaðar, jafnvel í bréfunum sem það hafði áður innleyst hagnað af. Launin voru talin í hundruðum milljóna á ári og stundum í milljörðum.
Í kjölfar hrunsins og eftir að ríkið kom að því að koma á fót nýju bankakerfi var eðlilega kallað eftir stefnu nýju eigenda bankanna, m.a. launastefnu. Þá stefnu má sjá í eigandastefnu ríkisins frá árinu 2009.
Þar segir að meginmarkmið með eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum lúti eftirfarandi þremur meginmarkmiðum:



  • Að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags.

  • Að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði.

  • Að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til íslenskra fjármálafyrirtækja.

Jafnframt segir að launafyrirkomulag skuli vera gagnsætt og sanngjarnt miðað við almenna framvindu efnahagslífsins og að vel unnin störf stuðli að framgangi. Einnig er lögð áhersla á fullt jafnrétti kynja í launamálum og framgangi starfa innan fyrirtækjanna skal sett í öndvegi.
Í eigendastefnunni segir að stjórnir og bankaráð fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins skuli koma sér upp undirnefndum m.a. starfskjaranefnd sem geri tillögu um launastefnu bankanna.
Um launakjör bankastjóra og forstjóra fjármálafyrirtækja sem ríkið á meira en helmingshlut í segir: Stjórnir bera annars ábyrgð á að starfskjarastefnu sé fylgt og ber þeim að útskýra og réttlæta launaákvarðanir sínar. Í þeim tilvikum sem ríkið á ekki meirihluta gilda almennar reglur og stjórn ákveður launakjör.
Í eigandastefnunni segir sömuleiðis að opinber fjármálafyrirtæki skulu tileinka sér hófsemi þegar kemur að launakjörum og með þvíer átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi.
Það er sem sagt eitt og annað til um það hver stefna ríkisins sé varðandi þau fjármálafyrirtæki sem ríkið á meirihluta í en um aðrar stofnanir hefur ríkið erfiðara að hafa bein áhrif hvað þetta varðar.
Launamál fjármálastofnanna hafa verið til umræðu á síðustu dögum, sérstaklega þá laun bankastjóra Arion banka sem sagður er vera með um 3 milljónir í laun á mánuði. Ríkið á 13% í Arion banka á móti kröfuhöfum, 5% í Íslandsbanka og 83% í Landsbankanum nýja. Laun bankstjóra Landsbankans er af annarri stærðargráðu en þeirra sem kröfuhafar eiga, þó há séu.
Það var nauðsynlegt að ríkið setti sér stefnu í launamálum í þeim fjármálafyrirtækjum sem það á hlut í og þó allra helst þar sem ríkið á meirihluta í. Samanburður á launum bankastjóra þeirra þriggja banka sem um ræðir sannar nauðsyn þess að slíkri stefnu sé fram fylgt eins og gert hefur verið.
Nú þarf ríkið, sem hluthafi í hinum tveim bönkunum, að knýja þá til að haga launamálum sínum þannig að þau séu í einhverjum takti við það sem gerist í samfélaginu og það sem samfélagið þolir, jafnt efnahagslega og ekki síður siðferðilega. Við megum ekki láta það gerast að þessi mál hrökkvi „óvart“ og án athugasemda í það far sem áður var og naut velþóknunar þáverandi stjórnvalda og stjórnmálamanna þess tíma. Ekki síst þeirra sem hæst hafa í dag sem nutu þess fjárhagslega að vera í góðu sambandi við ofurlaunafyrirtækin eins og dæmin sína.
Sá tími má aldrei koma aftur. Okkur ber að sjá um það.